Honda afhjúpar nýja rafmagns- „vespu“

Honda Motor Co. kynnti í morgun í Japan nýtt rafmagnsvélhjól. Þetta er fyrsta farartæki Honda sem eru alveg laus við útblástur í akstri. Hjólinu er ætlað í fyllingu tímans að taka upp samkeppni við Kínverja sem eru stórframleiðendur hverskonar vélhjóla.

Nýja rafhjólið nefnist EV-neo og er helst samanburðarhæft við bensínknúnar 50 rúmsm „vespur.“ Þessi gripur er sagður komast amk. 30 km á hleðslunni og almenn sala hefst í Japan í desember nk.

Toshiyuki Inuma, stjórnandi mótorhjólaframleiðslu Honda sagði að nýja hjólið yrði einungis í boði á heimamarkaðinum Japan fyrst um sinn en menn hefðu vissulega augastað á hinum risastóra markaði Kínaveldis þar sem árlega seljast 17 milljón vélhjól. En fyrst þyrfti að þróa rafhjólið betur og gera það samkeppnishæft í verði og akstursgetu. Hann vildi ekki nefna verð fyrir hjólið en sagði að það yrði svipað og á litlum vélhjólum að teknu tilliti til rekstraröryggis og mjög lágs eldsneytiskostnaðar.

Rafhlöðurnar í hjólinu er af lithium-ion gerð frá Toshiba og 20 mínútur tekur að hlaða tómar rafhlöður upp að 80 prósent hleðslu með því að stinga í samband við hraðhleðslutengil. Fjóra tíma tekur svo að fullhlaða tóma geyma með því að stinga í samband við venjulega ryksuguinnstungu.

Honda er stærsti mótorhjólaframleiðandi heims en annað japanskt fyrirtæki; Yamaha Motor Co. er næst stærst. Yamaha hefur einnig boðað rafmagnshjól sem kemur á markað í Japan, á Formósu og í Evrópu á síðari hluta ársins. Yamaha byrjaði reyndar á framleiðslu rafhjóla þegar árið 2002 en hætti framleiðslu á þeim árið 2006 vegna vandræða með líþíumrafhlöðurnar sem í þeim voru. Þessar erfiðu rafhlöður voru frá Hitachi. En síðan þá hefur mikið gerst í þróun léttra rafhlaða og þykir ekki líklegt að svipuð vandamál og Yamaha lenti í á árunum 2002 til 2006 eigi eftir að endurtaka sig.