Honda-umboðið yfir til Öskju

Bílaumboðið Askja ehf. og Bernhard ehf. hafa undirritað kaupsamning um kaup Öskju á þeim hluta reksturs Bernhard ehf. sem fer með Honda umboðið á Íslandi. Í kaupsamningnum er fyrirvari um samkomulag við Honda Motor Company Ltd. vegna kaupanna og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Í viðskiptunum er lagt til grundvallar að áfram verði byggt á þeim góða grunni og öflugu þjónustu sem viðskiptavinir Bernhard ehf. þekkja og eigendur Honda bifreiða á Íslandi hafa notið. Askja áformar að reka Honda umboðið til viðbótar við aðra starfsemi sína, en fyrir er Askja umboðsaðili fyrir Mercedes-Benz og Kia á Íslandi.

Bernhard hefur verið umboðsaðili Honda á Íslandi allt frá árinu 1962. Bernhard er þekkt fyrir góða þjónustu og hefur alla tíð verið í eigu fjölskyldu stofnandans, Gunnars Bernhard.