Hópun vörubíla er það sem koma skal

Framfarir í öryggis- og tæknimálum fleygir fram með ýmsum hætti og eru flutningsmál þar engin undantekning. Það nýjasta á því sviði lýtur að vöruflutningabílum og kallast fyrirbærið ,,hópun“ (e. Platooning). Hópun felur í sér mikil samskipti milli flutningsbílanna þar sem notaðar eru myndavélar og radar til að tengja saman tvo eða fleiri flutningabíla í eins konar flutningalest eða hóp.

Þessi þráðlausa tenging á milli farartækjanna gerir þeim kleyft  að taka af stað og hemla á sama tíma og einnig að keyra þéttar en áður. Þessi nýja tækni nemur einnig og bregst við farartækjum sem hópurinn nálgast hverju sinni.

Þessi núverandi tækni krefst þó að ökumaður sé í hverjum vörubíl hópsins sem hann stýrir og tekur yfir hraða og stjórnun eftir þörfum. Tæknin er ennþá í þróun og fljótlega mun einungis þurfa ökumann sem leiðir fremsta bílinn eða engan ökumann yfir höfuð þegar sjálfkeyrandi bílar taka við. Með svona hópun taka bílarnir minna pláss á veginum sem eykur um leið umferðaflæði.

Hópun eins og tæknin kallast eykur öryggi og sparar eldsneyti með því að fremsti bíllinn klýfur loftið og minnkar þannig loftmótstöðu fyrir vörubílana sem koma á eftir. Sérfræðingar áætla að þetta muni draga úr eldsneytisnotkun vörubíla um 4%.

Bandaríski herinn hefur sýnt þessari hópunartækni mikinn áhuga þar sem talið er að tæknin geti dregið úr mannfalli á vígstöðvum. Tæknin gæti einnig fækkað þeim hermönnum sem keyra flutningabíla á stríðhrjáðum svæðum.

Félag flutningsfyrirtækja í Bandaríkjunum og orkufyrirtæki eru mjög áhugasöm um þessa tækni sem hefur það að markmiði að tryggja hratt, öruggt, skilvirkt, aðgengilegt og þægilegt flutningskerfi. Allir aðilar leggjast á eitt að bæta orkunýtingu og draga úr kostnaði fyrir fyrirtæki og neytendur með þessari tækni.