House of Cars með TopGear þríeykinu

Fjölmiðlar í Evrópu, þar á meðal bílafjölmiðlar greina frá því að TopGear þríeykið Jeremy Clarkson, James May og Richard Hammond undirriti senn risasamning við Netflix efnisveituna um nýja bílatengda skemmtiþáttaröð sem á að heita House of Cars, eða Bílahúsið. Þetta er haft eftir mörgum samhljóða heimildum sem einnig greina frá því að þremenningasambandið fái fullt ritstjórnarvald yfir þáttaröðinni. Þremenningarnir eru sagði hæstánægðir með þetta þar sem þeir fái auk ritstjórnarvaldsins  miklu betur borgað en þeir hafa nokkru sinni fengið hjá BBC.

Nafnið Hous of Cars er einkonar tilvitnun í nafn þáttaraðarinnar vinsælu, House of Cards, eða Spilaborgin sem Netflix framleiddi fyrir ekki löngu. Sú þáttaröð var endurgerð eldri breskra þátta með sama nafni um spilltan stjórnmálamann sem nær æðstu metorðum með lygum, svikum og bellibrögðum og jafnvel morðum.

Fyrr á þessu ári var Jeremy Clarkson rekinn frá BBC fyrir að hafa gefið framleiðandanum Oisin Tymon á hann. En þá sögðu þeir James May og Richard Hammond upp þar sem þér töldu að TopGear yrði ekki langra lífdaga auðið án Clarksons. Ráðamenn BBC eru sagði hafa reynt að bjóða þeim Hammond og May gull og græna skóga í formi fjögurra milljóna punda (808 millj. ísl. kr.) fyrir að halda áfram með TopGear án Clarksons í tvö ár til viðbótar. Því höfnuðu þeir.

Þeir May og Hammond luku í síðustu viku við myndversupptökur fyrir tvo TopGear þætti sem voru að mestu fullbúnir um það leyti sem Clarkson var rekinn. Þættirnir verða sýndir fljótlega á BBC. Nú er verið að leita að nýju þríeyki fyrir nýja TopGear þáttaröð sem á að fara í útsendingu á næsta ári og er orðrómur uppi um að það verði kona sem komi í stað Clarksons. Sú heitir Jodie Kidd og hefur verið tískufyrirsæta og leikkona og þekkt í Bretlandi fyrir mikla bíladellu. Það er hún sem sést á myndinni ásamt Clarkson. Breskir fjölmiðlar fullyrða að vinna við nýju Netflix-þættina House of Cars sé um það bil að hefjast og að sýningar á þeim hefjist áður en árið er liðið.