Hraðasektir án ástæðu?

Skekkja í mælingum sænskra hraðamyndavéla á vegum úti kann að hafa valdið því að þúsundir ökumanna í Svíþjóð hafi fengið hraðasektir að ástæðulausu segir Dagens Nyheter.

Sérfræðingur um radartækni sem jafnframt er doktor í rafmagnsfræðum sem blaðið ræðir við um málið gagnrýnir hvernig  vélarnar voru stilltar en benda líka á að ýmsar ytri aðstæður geti valdið skekkju í mælingunum svo munar fleiri kílómetrum á klukkustund. Meðal þess sem haft getur áhrif á mælingarnar er hvass vindur og titringur frá þungum farartækjum sem eru á ferð um veginn, sem og flökt  á radargeislanum. Sérfræðingnum þykir ekki ósennilegt að þúsundir ökumanna hafi þannig verið sektaðir enda þótt í raun hafi þeir ekið undir hámarkshraða.

Sænska lögreglan og vegagerðin vísa þessu á bug og vitna til prófunar á hraðamyndavélunum sem fram fór árið 2000. Sérfræðingurinn segir að það próf sé ekki marktækt þar sem einn og sami bíllinn var notaður til að prófa og stilla myndavélarnar. Ekkert tillit hafi þannig verið tekið til mismunandi bíla né annarra þátta sem truflað geta radarmælingarnar.