Hraðhleðslustöðvar af fullkomnustu gerð rísa á Bretlandi

Breska fyrirtækið Gridserve, sem er frumkvöðull að sjálfbærum orkulausnum, tók í notkun fyrir skemmstu nýja hleðslustöð í Essex sem er merkileg fyrir margra hlutasakir. Þessi stöð er reyndar ekki sú fyrsta en hún er ein af 100 slíkum stöðvum sem Gridserve hefur verið að skipuleggja. Vonast forsvarsmenn fyrirtækisins eftir því að með þessari útvíkkun í þjónustunni eigi viðskiptavinum eftir að fjölga til muna næstu misserum.

Á stöðinni í Essex er hægt að hlaða 36 bíla á sama tíma með allt að 350 kw hleðslu á aðeins innan við 20 mínútum. Verðið fyrir þessa hraðhleðslu er eitt það lægsta í landinu, um 43 krónur íslenskar á kwh og er viðisaukaskattur þar innifalinn. Markmið fyrirtækisins er síðan að bjóða upp á verð sem reiknað verður út frá eftirspurn svo verðið getur orðið enn lægra þegar fram í sækir.

Eftirspurn eftir rafbílum verður æ meiri í Bretlandi og í dag eru um 200 rafbílategundir á breska markaðnum. Þess má og geta að í bígerð er að reisa stóra rafhlöðuverksmiðju í Blyth á norð-austur strönd Bretlands og hafa fjárfestar heitið því að koma með 2,7 milljarða punda við byggingu hennar. Verksmiðjan, sem stefnt er að opni fyrir 2027, mun veita þrjú þúsund manns atvinnu auk 5 þúsund starfa í þjónustu og tengdum fyrirtækjum.