Hraðhleðslustöðvar í Evrópu

Tesla rafbílaframleiðandinn er nú að byrja á uppsetningu á neti mjög öflugra hraðhleðslustöðva fyrir bíla sína, svipað og gert hefur verið í Kaliforníu og á austurströnd Bandaríkjanna. Almenn sala á Tesla S rafbílnum hefst í Evrópu í júnímánuði nk.

Sá þröskuldur í vegi rafbílanna alla tíð og sá sem enn hefur ekki nema að litlu leyti tekist að yfirstíga er drægi bílanna. Drægi rafbílanna er mun skemmra en hefðbundinna bíla á hverri eldsneytistankfylli og hleðslutími lengri. Þegar salan hefst á Tesla S í Evrópu í júnímánuði verður hægt að panta bílinn með 85 kílóWattstunda geymasamstæðu en það á að nægja til þess að bíllinn komist allt að 500 kílómetra á rafhleðslunni, en það er mjög gott fyrir rafbíl.

Í sambandi við drægi rafbíla, aðgengi rafbílaeigenda að hleðslustöðvum og langan hleðslutíma tala menn gjarnan um drægisótta en þessi tegund ótta sem fyrst og fremst hindri fólk í því að kaupa sér rafbíla. Til að vinna bug á drægisóttanum hefur Tesla lagt út í það stórverkefni að setja upp net hleðslustöðva út um öll Bandaríkin sem eiga að gera það mögulegt fyrir eigendur rafbíla að ferðast um víðáttumiklar heimaslóðir sínar ekkert síður en bensínbílaeigendur. Byrjað var í heimaríki Tesla, Kaliforníu og síðan er ætlunin að setja upp stöðvar í öllum ríkjum.

Hleðslustöðvarnar sem komnar eru upp eru ókeypis fyrir eigendur Tesla bíla og eiga alltaf að vera það. Þær eru hraðvirkar og um hálftíma tekur að hlaða geymana til hálfs. Sl. fimmtudag tilkynnti svo Elon Musk, forstjóri og eigandi Tesla um hraðhleðslustöðvarnar í Evrópu en tilgreindi ekkert um það hvar þær yrðu eða hvenær þær yrðu tilbúnar. En samtök „grænna“ ökumanna í Svíþjóð segja að raforkan fyrir hraðhleðslustöðvarnar eigi að koma frá sólarknúnum rafstöðvum.