Hraðhleðslustöðvum N1 fjölgar um þjóðvegi landsins

N1 hef­ur skrifað und­ir samn­ing við Öskju um kaup á 20 hraðhleðslu­stöðvum. Þær eru allt að 400 kw og eru því öfl­ug­ustu hraðhleðslu­stöðvar lands­ins. Með kaup­un­um fjölg­ar hraðhleðslu­stöðvum N1 á lyk­ilstaðsetn­ing­um um þjóðvegi lands­ins á næstu mánuðum, að því er seg­ir í til­kynn­ingu.

„Við ætl­um okk­ur að halda áfram á þeirri veg­ferð að vera leiðandi í orku­skipt­um í sam­göng­um á Íslandi og halda áfram að veita viðskipta­vin­um okk­ur besta mögu­legu þjón­ustu. Við höf­um metnaðarfull mark­mið sem krefjast mik­illa fjár­fest­inga en þétt­um með þessu net hraðhleðslu­stöðva veru­lega, viðskipta­vin­um okk­ar til hags­bóta,“ seg­ir Hinrik Örn Bjarna­son, fram­kvæmda­stjóri N1, í til­kynn­ing­unni.

Fljót­lega verður haf­ist handa við að setja upp 400kW hraðhleðslu­stöðvar í Staðarskála, en þar verða allt að 6 stöðvar sett­ar upp í sum­ar. Í kjöl­farið bæt­ast við tvær stöðvar til viðbót­ar við þær tvær sem nú þegar eru í Borg­ar­nesi og að því loknu verður haf­ist handa við upp­setn­ingu á Suður­landi.

Við bæt­ast hraðhleðslu­stöðvar á þjón­ustu­stöðum N1 í Vík og á Eg­ils­stöðum, en nú þegar eru stöðvar í Lind­um í Kópa­vogi, Mos­fells­bæ, Borg­ar­nesi, Blönduósi, Staðarskála, Hvols­velli og á Ak­ur­eyri.

„Það er okk­ur ánægja að N1 hafi valið að ganga til sam­starfs við Öskju í þessu metnaðarfulla verk­efni en hleðslu­stöðvarn­ar frá Innogy eru áreiðan­leg­ar og hafa reynst mjög vel víðsveg­ar um heim­inn. Við fögn­um auk­inni þjón­ustu við raf­bíla­eig­end­ur um allt land og ósk­um N1 til ham­ingju með áfang­ann,“ seg­ir Jón Trausti Ólafs­son, fram­kvæmda­stjóri Öskju, í til­kynn­ing­unni.