Hraðinn slysaorsök í einungis 20. hverju slysi
Bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA hefur rannsakað mjög nákvæmlega 6.949 bílslys í Bandaríkjunum. Lang algengasta orsök eða ráðandi þáttur bílslysanna var léleg einbeiting eða athyglisbrestur ökumanna. Annaðhvert slys var af þeim sökum. Hraðinn hinsvegar var orsök eða ráðandi þáttur í einungis fimm prósent tilvika. Skýrsluna í heild er að finna hér.
Rannsóknin nefnist National Motor Vehicle Crash Causation Survey (NMVCSS) og eru niðurstöðurnar taldar marka tímamót í umferðarslysavörnum í Bandaríkjunum. Megináherslan var á að finna og greina þann þátt sem beinlínis orsakaði hvert slys eða hratt af stað þeirri atburðarás sem endaði í slysi (critical pre-crash event).
Algengustu slysin eða 36 prósent reyndust vera árekstrar á vegamótum þegar bíl var ekið af hliðarvegi inn á aðalveg eða yfir veg á vegamótum og í veg fyrir umferð. Næst algengustu slysin voru útafkeyrslur eða 22 prósent.
Algengustu slysaorsakaþættir sem sem rekja má til ökumanna reyndust vera athyglisbrestur (41 prósent tilvika) sem venjulega er orðað þannig í lögregluskýrslum að –ökumaður áttaði sig ekki á aðvífandi hættu.- Þegar greint var hversvegna ökumaður áttaði sig ekki á aðvífandi hættu kom í ljós einbeitingarskortur. Ökumaður var með hugann við annað en aksturinn og lét eitthvað ýmist inni í bílnum eða utan hans trufla sig við aksturinn, eða þá að hann sagðist ekki hafa séð út út bílnum. Þetta síðastnefnda –sá ekki– reyndist vera stærsti orsakavaldurinn í aðdraganda slyss og gerðist oftast þannig að ökumaður leit ekki í kring um sig eða horfði en sá samt ekkert, eða gleymdi um leið því sem hann sá, þ.e.a.s. var með athyglina víðsfjarri akstrinum.
Um það bil 33 prósent ökumanna tóku rangar akstursákvarðanir. Meðal rangra akstursákvarðana er að aka og hratt miðað við aðstæður.
Um það bil 10 prósent ökumanna höfðu ekki ökutæknileg atriði á valdi sínu og gripu því til rangra viðbragða í tilteknum neyðaraðstæðum.
Slys sem rekja mátti til bílsins sjálfs og bilana í honum reyndust afar sjaldgæf. Bíla- og bílhlutaframleiðendur sleppa þó ekki algerlega undan gagnrýni því að gallar og bilanir í hjólbörðum, hjólabúnaði og hemlum eru atriði sem nefnd eru sem orsakavaldar slysa. Skýrsluhöfundar leggja áherslu á að mikilvægt sé að fá betri aðvörunarkerfi fyrir mikilvægan öryggisbúnað eins og hemlakerfi, hjólbarða og loftþrýsting þeirra og mynsturdýpt.