Hráolíuverð á uppleið

Verð á hráolíu af Brent svæðinu gæti farið upp í 150 dollara fatið þegar líða tekur á sumar. Þessu spáir  Jeff nokkur Currie en hann er hrávörusérfræðingur hjá Goldman Sachs. Í gær fór Brent-hráolíuverðið upp í 110 dollara fatið.

Verðið í gær er 10 dollurum hærra en það meðalverð ársins 2013 sem Goldman Sachs spáði í desembermánuði sl. Spáin var sú að meðalverð ársins yrði 100 dollarar fatið.

Jeff Currie sagði við fréttavef Dow Jones í gær að hækkanir á hráolíu nú væri einkum að rekja til Írans en þar hafa menn hægt umtalsvert á olíuframleiðslunni og hefur framleiðsluaukning Saudiarabíu og aukin gasframleiðsla ekki nægt til að vega upp á móti. Olíuframleiðsla í Saudíarabíu var á síðasta ári sú mesta sl. 30 ár.