Hrifning yfir tveggja strokka Fiat vélinni

Þótt nýja tveggja strokka bensínvélin TwinAir hafi aðeins verið fáanleg í nýjum Fiat 500 bílum í rúman mánuð þá hefur hún þegar hlotið viðurkenningu TopGear tímaritsins sem bílvél ársins. TopGear tímaritið er eins konar aukabúgrein stjónvarpsþáttar BBC með sama nafni þar sem Jeremy Clarkson, James May og Richard Hammond fara á kostum.

TopGear tímaritið segir að þessi litla og einungis 85 kílóa þunga bílvél sé bráðskemmtilegt orkubúnt sem sanni að hinn góði vinur vor; bensínvélin sé enn sprell-lifandi og til alls vís.

Tveggja strokka TwinAir vélin frá Fiat er 900 rúmsm að rúmtaki og sérstaklega sparneytin. Hún er 85 hö, vinnslan er 145 Newtonmetrar og vélin blæs frá sér einungis 95 grömmum af CO2 á kílómetrann. Samanborið við 1,2 lítra bensínvélina sem hefur verið lang algengust í nýja Fiat 500 smábílnum, þá er TwinAir 23 prósentum aflmeiri en eyðir 15 prósent minna bensíni og blæs frá sér 15 prósent minna CO2 en hún.

Elena Bernardelli markaðsstjóri Fiat í Bretlandi og Írlandi segir að hjá Fiat hafi menn vissulega haft trú á því að þessi nýja vel ætti eftir að falla bílakaupendum vel í geð, ekki síst vegna þess hve neyslugrönn og umhverfismild hún er, auk þess að vera skemmtileg í akstri. Þá væri það heldur ekki verra hversu vel bílablaðamenn væru að taka henni og hún reiknaði með að fleiri viðurkenningar ættu eftir að falla henni í skaut.