Hring­vegur­inn stytt­ist um 12 km

Framkvæmdum við nýjan Hringveg (1) um Hornafjörð lýkur fyrir áramót. Þar með styttist Hringvegurinn um tólf kílómetra. Aron Örn Karlsson, staðarstjóri Ístaks, segir verkið hafa gengið vel og er á áætlun að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Framkvæmdin er umfangsmikil og snýst um lagningu 19 km langs þjóðvegar, 9 km af hliðarvegum og byggingu fjögurra tvíbreiðra brúa sem eru samtals 468 m langar. Einnig verða gerðir tveir áningarstaðir.

„Hér hafa starfað að meðaltali um fjörutíu manns frá því verkið hófst í ágúst 2022 en sú tala reyndar nær tvöfaldaðist frá hausti 2023 til loka árs 2024 á meðan brúargerðin stóð sem hæst,“ segir Aron Örn Karlsson staðarstjóri Ístaks.

Verkið gríðarstórt á íslenskan mælikvarða

Verkið er gríðarstórt á íslenskan mælikvarða og því nokkuð umleikis á verkstað.

„Við erum með vinnubúðir sem hýsa 44 manns, þar er einnig að finna mötuneyti, skrifstofur, verkstæði og steypustöð,“ lýsir Aron en starfsmenn koma víða að og láta vel af vistinni. „Þetta er úthald hjá flestum sem vinna sex vikur í senn, alla daga nema sunnudaga, og fá svo frí í tvær vikur,“ segir Aron sem sjálfur flutti með fjölskyldunni til Hafnar meðan á framkvæmdunum stendur.

Góður gangur hefur verið í verkinu frá upphafi. „Fyrstu skrefin fólust í að setja farg og fyllingar í brúarstæði og vegstæði. Fargtíminn fyrir brúarstæðin var hálft ár og því mikilvægt að byrja,“ segir Aron en brúargerðin fór af stað í október 2023. Unnið var í brúnum samtímis, en þó ekki fleirum en þremur í einu. „Við reyndum að flýta fyrir okkur og með góðu skipulagi og auknum mannskap náðum við að vera töluvert á undan áætlun með brúargerðina. Til dæmis steyptum við upp allar brýrnar fyrir jólin 2024 sem ætlunin var að klára vorið 2025. Með þessu móti sluppum við við brúargerð á vetrartíma sem getur verið erfið.“

Í vetur hefur verktakinn undirbúið vegagerðina, mokað undan brúm og unnið að vatnaveitingum, það er að færa árnar undir nýju brýrnar en veita þurfti ánum um annan farveg meðan á framkvæmdum stóð.

Um þessar mundir fer mestur krafturinn í ræsagerð, rofvörnum og útlögn á styrktarlagi. Efnisvinnsla í Skógeyjarnámu er farin af stað en þar verður unnið efni í burðarlag og klæðingu. Klæðing hefst í lok júní og áætlað er að búið verði að klæða allan vegkaflann í lok ágúst. Eftir það stendur aðeins eitt verk út af en það er nýtt hringtorg við austurenda framkvæmdanna.

Fjórar tvíbreiðar brýr í stað þriggja einbreiðra

Fjórar brýr eru hluti af verkinu. Allar eru þær tvíbreiðar og koma í stað þriggja einbreiðra brúa á Hringveginum, þar á meðal lengstu einbreiðu brú landsins yfir Hornafjarðarfljót. Brúin var byggð árið 1961 og er 64 ára gömul. Hún var á þeim tíma sú næstlengsta á Íslandi, 255 metra löng. Brúin er fyrir löngu orðin barn síns tíma, einbreið, sem veldur því að aðeins er hægt að aka yfir hana í aðra áttina í einu.

Brú yfir Djúpá

  • Um tveimur kílómetrum sunnan við núverandi brú yfir Djúpá.
  • 52 metra löng í tveimur höfum.

Brú yfir Hornafjarðarfljót

  • Um sjö km sunnan við núverandi brú yfir Hornafjarðarfljót.
  • 250 m löng í sex höfum.

Brú yfir Hoffellsá

  • 114 m löng, steypt, eftirspennt bitabrú í þremur höfum.

Brú yfir Bergá

  • 52 m löng, steypt, eftirspennt bitabrú í tveimur höfum.