Hringvegurinn styttist um 16 km

Hringvegurinn liggur nú um Vaðlaheiðargöng eftir að þau voru opnuð fyrir umferð. Auk þess að losna við farartálmann Víkurskarð velji vegfarendur göngin þá styttist Hringvegurinn um 16 km og að sama skapi leiðin milli Akureyrar og Húsavíkur. Víkurskarð mun þó áfram vera og opið og þjónustað. Göngin verða formlega opnuð 12. janúar nk. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Vaðlaheiðargöng voru opnuð óformlega fyrir umferð 21. desember sl. Hringvegur (1) liggur nú um jarðgöngin og styttist við það um 16 km. Göngin eru alls 7478 metrar, þar af 272 metrar í vegskálum. Hæð vegar við gangamunna í Fnjóskadal er 161 m y.s.    

Áfram verður hægt að fara veginn um Víkurskarð eftir Grenivíkurvegi (83) og Víkurskarðsvegi (84).  Víkurskarð er 325 m y.s., erfiður fjallvegur miðað við hæð og hefur verið einn helsti farartálmi Hringvegarins. Brekkur eru efiðar með 9% halla þar sem mest er. Aðalmarkmið með Vaðlaheiðargöngum er að losna við að fara yfir Víkurskarð, styttingin kemur svo að auki.    

Frá 2. janúar verður gjaldtaka í göngunum. Gjaldtakan er sjálfvirk þannig að tekin er mynd af númerum bíla  inni í göngunum som og stærð bíla er metin. Hafi bíll verið skráður á veggjaldavefinn ásamt kreditkortanúmeri greiðanda er veggjald dregið beint af viðkomandi kreditkorti. Sé bíll ekki skráður er sendur reikningur á skráðan eiganda ökutækisins og bætist innheimtukostnaður þá við veggjaldið. Sjá nánar vefinn veggjald.is þar sem einnig er hægt að kaupa afsláttarmiða fyrirfram.

 Áætlað er að formleg opnunarhátíð ganganna verði 12. janúar.