Hugbúnaður eða nýtt útblásturskerfi?

Audi í Bandaríkjunum lýsti yfir í gær að gerður verði hugbúnaður sem stjórnar mengunarvarnarbúnaði í 85 þúsund bílum sem eru með þriggja lítra dísilvélum. Bandarísk yfirvöld höfðu fyrr í þessum mánuði lýst því yfir að umræddar 3ja lítra VW dísilvélar menguðu meira en bandarísk lög leyfðu.

Audi ætlar að leggja nýja hugbúnaðinn fyrir bandarísk stjórnvöld í þeirri von að fá hann viðurkenndan af þeim sem það ráð sem dugar til að gera vélarnar löglegar. Að fenginni viðurkenningu verður búnaðurinn settur í bílana sem um ræðir. Þangað til hún er í höfn liggur sala nýrra bíla með 3ja lítra dísilvélum niðri.

Umræddar 3ja lítra dísilvélar eru reyndar ekki bara í bílum frá Audi heldur líka í stórum og dýrum bílum frá Volkswagen og Porsche. Ef þessi nýi hugbúnaður kemur til með að duga eins og til er ætlast, er hann augljóslega mun ódýrari leið en sú að hreinlega skipta öllu útblásturskerfinu út í bílunum og koma nýju og mun flóknara og dýrara kerfi fyrir í þeim og jafnvel líka í þeim tæplega 500 þúsund VW bílum til viðbótar með minni dísilvélunum. En hvort hugbúnaðurinn dugar til að leiðrétta hlutina á eftir að koma í ljós.

Þriggja lítra dísilvélin sem hér um ræðir fyrirfinnst í Audi A6, A7, A8, Q5 and Q7 af árgerðum 2009 til 2016. Hún fyrirfinnst líka í VW Touareg og Porsche Cayenne árg. 2013-2016.