Hugsaðu áður en þú ekur af stað

The image “http://www.fib.is/myndir/Hugsadu-litil.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Eitt af meginmarkmiðum FÍB er örugg umferð. Við getum og verðum öll að stuðla að öruggari umferð með því að fara að lögum og reglum, halda bílunum okkar vel við og nota þann öryggisbúnað sem í þeim er og á að vera í þeim.

FÍB er aðili að alþjóðasamtökum bifreiðaeigendafélaga FIA. FIA stendur um þessar mundir að heimsátaki gegn umferðarslysum. Það felst m.a. í því að hvetja alla til að fara að umferðarreglum og nota þann öryggisbúnað sem í bílnum er.

Nú hefur þetta heimsátak FIA náð til Íslands og hér Íslandi er það í umsjón FÍB í góðri samvinnu við Umferðarstofu og íslensk fyrirtæki sem láta sig þessi mikilvægu mál varða. Félagið hefur þýtt, gefið út og dreift inn á hvert einasta heimili í landinu bæklingi þar sem leiðbeint er um notkun öryggisbúnaðar í bílum og hvers vegna búnaðurinn er svo nauðsynlegur.

Bæklingurinn nefnist Hugsadu áður en þú ekur. Í honum er skýrt út í máli og myndum hversvegna öryggisbúnaður í bílum er svo nauðsynlegur og hvað gæti gerst ef hann er ekki notaður. Þennan bækling getur þú skoðað í tölvunni þinni sem PDF skjal með því að smella -Hérna.

Átakið snýr fyrst og fremst að sérhverjum þeim sem ekur bíl vegna þess að ökumaðurinn, svipað og skipstjórinn eða flugstjórinn, ber ábyrgð á farartæki sínu, hvernig hann beitir því og að það sé í lagi og öllum öryggisreglum sé fylgt. Það er þessvegna á ábyrgð ökumannsins að sjá til þess að bíllinn sé í lagi, réttur loftþrýstingur sé í dekkjum og þau hvorki of slitin né skemmd og að allir þeir sem í bílnum eru noti öryggisbúnaðinn í bílnum sem eru auðvitað öryggisbeltin fyrst og fremst og hnakkapúðarnir. Það er líka skylda ökumannsins að sjá til þess að viðeigandi öryggisbúnaður sé fyrir börnin í bílnum og að hann sé rétt festur í bílinn og börnin rétt fest í þann öryggisbúnað sem hæfir aldri þeirra og þyngd.

Auk bæklingsins sem nú er verið að ljúka við að dreifa inn á hvert einasta heimili í landinu mun handhægt áhald frá FÍB, FIA-alþjóðasamtökum bifreiðaeigendafélaga og Bridgestone dekkjaframleiðandanum liggja frammi á öllum bensínafgreiðslustöðvum Skeljungs og víðar á næstunni.

Þetta ágæta og handhæga áhald er til að mæla loftið í dekkjunum og sömuleiðis slit þeirra. FÍB vill hvetja alla til að ná sér í þetta áhald og mæla reglulega loftþrýstinginn í dekkjunum og slit þeirra. FÍB hvetur eindregið tll þess að fólk fylgist reglulega með dekkjunum og loftþrýstingnum í þeim. Hver hann á að vera er skráð í handbók bílsins. Þessar upplýsingar er einnig að finna innanvert á aftari hurðarstólpanum stýrismegin í flestum nýlegum bílum. Við skulum minnast þess að snertiflötur hvers dekks við veginn er ámóta stór og lófi manns. Þessi snertiflötur er undirstaða þess að bíllinn sé stöðugur á veginum, hann sé rásfastur í akstri og stýri og hemlar vinni eins og þeim er ætlað.

En auk bæklingsins og loft/slitmælisins munu á næstunni birtast myndasögur í dagblöðunum svipaðar þeim sem félagsmenn FÍB þekkja úr FÍB blaðinu. Í þeim skýra heiðurshjónin og árekstursprófsbrúðurnar Jón og Jónína út hvaða gagn öryggisbelti og hnakkapúðar gera ef slys verður og hvað getur gerst ef þessi búnaður er látinn ónotaður.

FÍB óskar öllum vegfarendum velfarnaðar í umferðinni um verslunarmannahelgina og alla aðra daga ársins. Ökumenn! munið að hugsa áður en þið akið af stað - mælið loftþrýstinginn reglulega, spennið beltin, stillið hnakkapúðana og látið aðra í bílnum gera hið sama. Góða ferð.