Hugsanlegur ágalli í Jeep rannsakaður í USA

Jeep Grand Cherokee eins og sá sem rann inn í kirkjugarð og velti legsteinum.
Jeep Grand Cherokee eins og sá sem rann inn í kirkjugarð og velti legsteinum.

Bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA hefur útvíkkað rannsókn á meintum ágalla í bílum frá Fiat-Chrysler. Rannsóknin hófst í september sl. og náði til rúmlega 400 þúsund bíla en nú nær hún til 865 þúsund bíla. Hún snýst um að kanna hættu á að bílarnir geti runnið af stað enda þótt ökumenn telji sig hafa sett skiptistöng þeirra í „Park“ eða P stöðu áður en þeir gengu frá þeim á stæði.

Bílarnir sem rannsóknin nær nú til eru 2014-15 árgerðir Jeep Grand Cherokee og 2012-14 árgerðir Dodge Charger og Chrysler 300. Bílarnir eru búnir því sem kallast E-skipting en það mun vera einskonar hefðbundinn gírkassi með sjálfvirkum rafeindabúnaði sem skiptir milli gíra. Rannsóknin gæti verið undanfari innköllunar komi það í ljós að um galla sé að ræða. Svo er alls óvíst ennþá. Vera kann að bara sé um hreina handvömm ökumanna að ræða.

NHTSA segist í Reutersfrétt hafa fengið 314 skriflegar kvartanir vegna hins meinta ágalla. Í 121 tilfelli runnu bílar af stað og rákust á hús, fólk eða aðra bíla. Í 30 tilfellanna urðu slys á fólki og hlutu m.a. tveir beinbrot. Engin dauðaslys hafa verið skráð vegna þessa.

Enn sem komið er virðist vart vera að einhverskonar galli sé til staðar því að sé gírstöngin ekki tryggilega í P-stöðu þegar ökumaður opnar dyrnar og ætlar að stíga út, klingir viðvörunarbjalla og viðvörunarljós blikkar til að minna hann á að ganga almennilega frá bílnum.

Stór hluti hinna skráðu óhappa urðu mjög skömmu eftir að ökumennirnir höfðu eignast bílana. Eitt slíkt varð í september sl. Eigandinn kom á nýkeyptum bílnum til messu. Hann lagði honum og steig út, en þá rann bíllinn af stað og inn í kirkjugarðinn og velti þar um legsteinum og olli tjóni upp á 1.500 dollara.