Hummer er „bömmer“

http://www.fib.is/myndir/HummerH2.jpg
Hummer H2.

General Motors vill losna við Hummer. Sjálft vörumerkið og framleiðslan er til sölu en þar sem enginn líklegur kaupandi hefur fundist er líklegast að framleiðslunni verði einfaldlega hætt endanlega. Hummer bílar seljast nánast ekki neitt lengur  og GM leggur stöðugt meiri áherslu á sparneytna bíla og þróun rafbíla í stað risastórra og bensínfrekra bíla sem fáir vilja lengur eiga og reka.
 
Upphaflega var Hummer þróaður og byggður af AM General Corporation fyrir bandaríska herinn. Nafnið Hummer er nokkurskonar gælunafn því raunverulegt nafn á fyrirbærinu var High Mobility Multipurpose Wheeled Vehicle sem var skammstafað HMMWV og sem í daglegu tali var framborið sem Hum-Vee.

Hum-Vee var sem sé hernaðarfarartæki og ekki á almennum bílamarkaði fyrr en árið 1992 þegar borgaraleg útgáfa bílsins kom fram. Það gerðist eftir að vöðvafjallið, kvikmyndaleikarinn og núverandi ríkisstjóri Kaliforníu, Arnaldur frá Svörtuegg, eða Arnold Schwarzenegger ók á Hum-Vee í fyrstu kvikmyndinni um útrýmandann – The Terminator. Hin borgaralega útgáfa bílsins fékk þá nafnið Hummer.

General Motors keypti vörumerkið árið 1998 og hóf að framleiða Hummer H2 og H3. Þeir bílar voru byggðir á undirvögnum stórra jeppa og pallbíla GM sem þegar voru í framleiðslu. AMG hélt hins vegar áfram að framleiða upphaflega (borgaralega) bílinn, sem nefndist H1, frá 1992 og allt fram til ársins 2006 þegar framleiðslan hætti.

Hummer H2 og H3 eru því eiginlega ekki annað en slakar eftirlíkingar af hinum upprunalega HMMWV eða Hum-Vee og eftirspurn eftir þeim er engin orðin. Þeir bílar sem þegar hafa verið byggðir eru ill- eða óseljanlegir og safna nú ryki á bílalagerum GM.