Hummer hættir

General Motors sendi frá sér fréttatilkynningu rétt fyrir helgi um að ekkert yrði af kaupum  kínverska bílafyrirtækisins Tengzhong á Hummer vörumerkinu og bílaframleiðslu þess. Hvorttveggja verði því lagt niður, það er að segja bæði vörumerkið og framleiðslan. Um það bil þrjú þúsund starfsmenn missa við þetta vinnuna. General Motors hefur reynt að selja frá sér vörumerkin Pontiac, Saturn, Hummer, Opel og Saab. Það hafðist með herkjum að selja Saab eins og margir muna, stjórn GM hætti mjög skyndilega og óvænt við að selja Opel en sala hinna þriggja rann út í sandinn. 

Aðra sögu er hins vegar að segja af Ford. Þegar Alan Mulally, sem áður var hjá Boeing, var ráðinn framkvæmdastjóri árið 2006 fór Ford að vinna eftir áætlun hans sem nefndist One Ford. Það þýddi að Ford í Bandaríkjunum og Evrópu skyldu vinna náið saman að hönnun og þróun bíla og skapa svokallaða heimsbíla, það er að segja sömu bíla sem yrðu á boði á mörkuðum beggja vegna Atlantshafsins í stað sér-bandarískra og sér-evrópskra bíla. Hjá Ford voru menn nefnilega komnir á þá skoðun að ómögulegt væri lengur að halda utan um allan þann fjölda mismunandi bíla og bílgerða sem framleiddar voru undir merkjum Ford. Þeim yrði að fækka.

Á þeim fjórum árum sem Alan Mulally hefur stýrt málum hjá Ford er búið að selja flest öll dótturmerki Ford, merki eins og Aston Martin, Jaguar, Land Rover og nú síðast Volvo. Að vísu hefur ekki fengist mikið fyrir þessi vörumerki, en Ford var þó laus við þau þegar kreppan lagðist á bílaiðnaðinn af fullum þunga 2008. Þannig tókst að koma jafnvægi á fjármálin hjá Ford áður en það versta dundi yfir sem er meira en hægt er að segja um GM. GM hafði engan viðbúnað tiltækan þegar eldsneytisverðið rauk upp og eðyslufrekir bílar urðu nánast óseljanlegir í Bandaríkjunum og bílasala í heild dróst saman um helming. Fyrir GM var þá ekkert annað til bjargar frá endanlegu gjaldþroti en að þiggja 50 milljarða dollara ríkislán. GM stjórarnir voru einfaldlega alltof seinir að bregðast við og fækka vörumerkjum sínum og eftir að kreppan var gengin í garð fyrirfundust hreinlega ekki kaupendur að þeim sem höfðu efni á og vilja til að borga einhverskonar sannvirði.

Um 3.000 manns missa vinnuna þegar Hummer leggst niður. Auk þeirra snertir málið mikinn fjölda fólks sem starfa við sölu og þjónustu Hummer bíla. Hummer hefur selst mjög illa frá því að bensínverð tvöfaldaðist í Bandaríkjunum árið 2008. Árið 2009 seldust einungis 10 þúsund Hummer bílar. Þegar mestur gangur var í sölunni árið 2006 seldust 71.524 Hummerbílar.