Hvað er nýi bíllinn gamall?

Nýlega hafa fallið tveir dómar í hæstarétti Danmerkur sem snerta raunverulegan aldur bíla. Með þessum dómum kveður rétturinn upp úr með að bílasölum sé skylt að upplýsa kaupendur um raunaldur bíla, ekki bara um fyrsta skráningardag heldur líka framleiðsluár. Þessar upplýsingar séu mjög mikilvægar fyrir neytendur þegar þeir kaupa bíla.

 Bæði þessi dómsmál snerust um bíla sem sagði voru nýir en reyndust hafa verið framleiddir tveimur árum áður en þeir voru nýskráðir í bifreiðaskrá Danmerkur. Sölumennirnir sögðu kaupendum hins vegar ekki frá því áður en kaupsamningar voru undirritaðir.

 Út úr þessum dómum má lesa það að skráning bíla í bifreiðaskrá er með svipuðum hætti í Danmörku eins og á Íslandi, það er að segja að nokkurnveginn eina aldursviðmið sem neytendum er gefið í skránni er hvenær bíllinn var nýskráður

 Fjöldi svipaðra mála hafa komið inn á borð FÍB þar sem félagsmenn hafa keypt bíla sem síðan reyndust mun eldri en haldið hafði verið fram. Við munum fjalla um þessi mál hér á fréttavef FÍB eftir helgina í nokkrum greinum sem birtast munu fram eftir næstu viku.