Hvar er næsti hleðslustaður?

Samgöngufélagið, félag frumkvöðulsins Jónasar Guðmundssonar sýslumanns í Bolungarvík, hefur látið hanna sérstakt þjónustumerki sem vísar á staði þar sem hlaða má ökutæki rafmagni. Einar K. Guðfinnnsson, forseti  Alþingis, kom fyrsta merkinu fyrir og tók það formlega í notkun. Það er staðsett við verslunina Verslunar-Geira  við Þuríðarbraut, við mörk þéttbýlisins í Bolungarvík.

Merkið var hannað af Vegagerðinni að ósk Samgöngufélagsins, en þetta er fyrsta merkið  með þessu útliti sem tekið er í notkun. Hefur Samgöngufélagið jafnframt óskað eftir að merkið verði  innleitt í reglugerð nr. 289/1995 um umferðarmerki .

Full þörf verður að telja fyrir merki sem þetta þar sem ökutækjum knúnum rafmagni, jafnt bifreiðum sem hjólum, fer ört fjögandi og stefnt að frekari fjölgun þeirra.  Telst því nauðsynlegt að sem víðast megi hlaða þessi ökutæki rafmagni og að upplýsingar um og aðgengi að slíkri hleðslu sé sem sýnilegast.  Samgöngufélagið áformar að koma þessu merki á framfæri við flest sveitarfélög og aðra sem hafa með orkugjafa fyrir ökutæki að gera.  Er þess vænst að sem víðast verði hugað að hvort ekki sé rétt að koma fyrir eða útbúa rafmagnstengla eða innstungur og setja síðan merkið upp til upplýsingar fyrir þá sem eru á ferð á rafknúnum ökutækjum hérlendis bæði við götur og vegi en ekki síður á bílastæðum t.d. fjölbýlishúsa  eða skóla og annarra vinnustaða.

Einnig hefur verið útbúið sérstakt merki fyrir svokallaðar hraðhleðslustöðvar sem er eins útlits og merkið sem tekið var í notkun í gær að öðru leyti en að bætt hefur verið inn á það mynd af skeiðklukku.

http://fib.is/myndir/Rafmenn.jpg
F.v: Elías Jónatansson, bæjarstjóri í Bolungarvík, Einar K. Guðfinnsson,
Jónas Guðmundson formaður Samgöngufélagsins og Sigurgeir Sigur-
geirsson kaupmaður í Verslunar-Geira.