Hver á að greiða það sem er umfram 250 milljónir af samráðssekt Skeljungs?

The image “http://www.fib.is/myndir/Skeljungurlogo.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Í ársskýrslu Haga, móðurfélags olíufélagsins Skeljungs hf (Shell), er greint frá því að 450 milljón króna sekt sem félaginu var gert að greiða fyrir meint brot á samkeppnislögum hafi verið greidd í maímánuði sl. 250 milljónir af sektinni hafi verið færðar til gjalda í reikningum félagsins en afgangurinn, 200 milljónir króna ekki þar sem fyrri eigendur félagsins beri ábyrgð á þeim.
Um þetta segir í ársskýrslunni að félagið hafi í hyggju að áfrýja niðurstöðunni til dómstóla. Ekki liggi fyrir hvaða áhrif áfrýjun málsins muni hafa á rekstur og fjárhagsstöðu félagsins, en sú spurning hlýtur að vakna hver það sé sem eigi þá að greiða þessar 200 milljónir sem út af standa?  Er verið að tala um þá sem voru aðaleigendur á samráðstímanum eða þá sem komust yfir félagið síðar?  Þessi tala, 200 m.kr. gæti breyst þegar niðurstaða dómstóla er fengin í áfrýjunarmálunum.
Á þeim tíma sem olíufélögin eru sökuð um að hafa haft með sér ólögmætt samráð, frá 1. mars 1993 (gildistaka samkepnnislaga) til 18. desember 2001 (húsleit hjá Esso, Olís og Shell) var Skeljungur hlutafélag í eigu afkomenda Hallgríms Benediktssonar, Sjóvár, Eimskipafélagsins, Shell International o.fl.  Kristinn Björnsson (barnabarn Hallgríms) var forstjóri Skeljungs á samráðstímanum og stór hluthafi.  Í kjölfar átaka um eignarhald og yfirráð í Skeljungi á árinu 2003 lét Kristinn af störfum sem forstjóri.  Í byrjun ágúst 2003 var greint frá því að Kaupþing Búnaðarbanki, Burðarás og Sjóvá Almennar tryggingar sem þá voru orðnir stærstu eigendur Skeljungs með um 90% hlut hefðu stofnað sameiginlegt félag Steinhóla ehf. um eignarhlutinn í Skeljungi. Í framhaldinu var öðrum hluthöfum gert yfirtökutilboð.  Nokkru seinna tók Fengur fjárfestingafélag, sem Pálmi Haraldsson fer fyrir, yfir meirihluta í Skeljungi og félagið var svo á liðnu ári sameinað Högum sem m.a. rekur Bónus, Hagkaup, 10-11 og fleiri verslunarfyrirtæki.
Það er því spurning um hver var krafinn um 200 milljón kallinn og hver verður krafinn eða fær til baka þegar niðurstaða dómstóla liggur fyrir?  Er það Kristinn fyrrum forstjóri ásamt meðeigendum, Steinhólar eða Pálmi og félagar?  Væntanlega munu sérfræðingar viðskiptablaðanna keppast um að komast að þessu á næstu dögum.