Hvers vegna lækka olíufélögin ekki eldsneytið?

Allt önnur verðþróun er á bensín- og dísilolíuverði á Íslandi samanborið við Danmörku. Danski markaðurinn eltir þróun heimsmarkaðsverðs meðan sá íslenski sveiflast upp en frýs svo án eðlilegra skýringa.

FÍB tók saman töluleg gögn frá 1. mars til dagsins í dag varðandi þróun bensín- og dísilverðs á Íslandi og í Danmörku með samanburð við þróun heimsmarkaðsverðs. Á þessu tímabili hækkað heimsmarkaðsverð ört í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Nokkur verðsveifla var á mörkuðum en verðið hefur farið niður síðustu tvær vikur.  

Skattar á eldsneyti eru háir í Danmörku líkt og hér á landi. Vöru- og kolefnisgjald á hvern bensínlítra er um 84,95 krónur miðað við 5% íblöndun endurnýjanlegs eldsneytis. Sömu skattar á hvern lítra í Danmörku eru 4,678 danskar krónur sem gerir um 89,80 íslenskar krónur uppreiknað með meðalgengi yfir tímabilið. Skattar á dísilolíulítra eru 74,12 krónur hér á landi miðað við 7% íblöndun lífdísils. Dísilskatturinn í Danmörku er lægri eða 3,249 danskar krónur sem gerir um 62,35 íslenskar krónur. Virðisaukaskattur leggst á innkaupsverð, skatta og álagningu eldsneytisverðsins. Virðisaukaskattur í Danmörku er 25% en 24% á Íslandi.

Á bensínlínuritinu má sjá stóra stökkið í byrjun tímabilsins. Dönsku verðin fóru á meira flug en á Íslandi. Lækkunin var einnig snörp til danskra neytenda á meðan verðið hefur haldist í hæstu hæðum hér á landi. Inni á línuritinu má sjá verðþróunarlínu (trend) fyrir bensínið í báðum löndum og það er okkur ekki í vil.  Hæsta verðið hjá Orkunni á tímabilinu var þann 10. mars eða 301,80 krónur og verðið er núna 299,80 krónur. Til samanburðar var hæsta verðið hjá Q8 í Danmörku uppreiknað í íslenskar krónur 316 krónur þann 9. mars en er um þessar mundir um 273 krónur.  Meðalverð bensínlítrans hjá Orkunni á tímabilinu er 296,50 krónur en 286,40 krónur hjá Q8 í Danmörku.

Þróun útsöluverðs bensínlítra

 

Smellið á mynd til að stækka

Við sjáum svipaða mynd á dísillínuritinu. Tvær bylgjur í Danmörku og á heimsmarkaði en bara veruleg hækkun í upphafi hér á landi og síðan hefur verðið verið hátt. Gangisþróun íslensku krónunnar skekkir ekki þennan samanburð. Gengið gagnvart Bandaríkjadal sem er gjaldmiðill olíunnar er hagstæðara síðustu tvær vikurnar en meðalgengi tímabilsins.   Hæsta verðið hjá Q8 í Danmörku var 9. mars eða 321,90 uppreiknað í íslenskar krónur. Verðið hjá Q8 er núna er 257,70 krónur og meðalverðið yfir tímabilið 276,70 krónur. Hæsta verðið á dísillítra hjá Orkunni á tímabilinu er núverandi verð eða 299,70 krónur. Meðalverðið á dísilolíu hjá Orkunni á tímabilinu er 293 krónur á lítra.

Þróun útsöluverðs dísellítra

 

Smellið á mynd til að stækka