Hyundai framleiðandi ársins að loknu heimsmeistaramóti FIA í ralli

Hyundai Motorsport landaði fyrsta titlinum á heimsmeistaramóti FIA í ralli (WRC) þegar Hyundai var útnefndur framleiðandi ársins eftir fjóra sigra og þrettán skipti á verðlaunapalli sem skiluðu liðinu 380 stigum þegar yfir lauk. Hafði Hyundai átján stiga forskot á þann framleiðanda sem næstur var að stigum.

Rallýteymi Hyundai Motorsport undirbýr sig nú að fullu fyrir næstu vertíð með enn sterkara liði en nokkru sinni fyrr og stefnir liðsheildin til enn hærri metorða á heimsmeistaramótinu 2020 sem hefst í janúar í Monte Carlo í Mónakó.

Hyundailiðið teflir sem fyrr fram Hyundai i20 Coupe WRC sem er einstaklega jafnvígur á mismunandi vegaðstæður undir stjórn ökuteymanna Thierry Neuville og Nicolas Gilsoul og Dani Sordo og Carlos del Barrio. Neuville og Gilsoul unnu þrjár keppnir og Sordo og Barrio lönduðu sínum fyrsta sigri í Sardiníu. Þá komust Andreas Mikkelsen og Anders Jæger-Amland þrisvar á verðlaunapall og skiluðu m.a. einum besta tíma liðsheildarinnar á mótinu í Argentínurallinu auk þess sem Sébastien Loeb og Daniel Elena voru í hópi þriggja efstu í Chile.