Hyundai játar að hafa haft rangt við

Bandarísk yfirvöld hafa tekið í lurginn á Hyundai-Kia samsteypunni fyrir að gefa upp of lágar eyðslutölur fyrir bíla. Samsteypunni hefur verið gert að breyta uppgefnum eyðslutölum 900 þúsund bíla og hækka þær. Jafnframt skal hún greiða kaupendum bílanna skaðabætur vegna þess eldsneytis sem eigendur bílanna hafa þurft að leggja út fyrir umfram uppgefnar eyðslutölur.

 Þótt Evrópubúum þyki eldsneytisverðið hlægilega lágt í Bandaríkjunum þá hefur síhækkandi verð undanfarin ár og mánuði valdið venjulegu fólki þar  umtalsverðum búsifjum. Margir eiga langar akstursleiðir til og frá vinnu á degi hverjum og bensínverðið hefur því veruleg áhrif á fjárhag heimilanna.

Þær eyðslutölur sem framleiðendur gefa upp fyrir nýja bíla eru fundnar með sérstakri mælingu sem fer fram á keflum inni á rannsóknastofu. Bílnum er ekið á keflunum og í þessum akstri er reynt að líkja eftir raunverulegum aðstæðum eins og brekkum, loftmótstöðu o.fl. Aðstæður í þessum mælingum eiga að vera eins allstaðar, það er að segja sami aksturshringur og sama hita- og rakastig hvar svo sem mælingin fer fram. Þannig verður til einskonar vísitala sem neytendur geta kynnt sér þegar þeir hyggja á bílakaup. Í Evrópu hefur mæliaðferðin sjálf, hin svonefnda Evrópumæling sætt verulegri gagnrýni undanfarin ár fyrir það að sýna allt of lágar eyðslutölur sem eru fjarri raunveruleikanum.

Nokkur munur hefur verið á Evrópumælingunni og þeirri bandarísku. Í Bandaríkjunum er eyðslan mæld í aðstæðum sem líkjast annarsvegar akstri í borg og hins vegar akstri á vegum úti. Á sölustað og í auglýsingum er síðan skylt að hafa þessar eyðslutölur vel sýnilegar. Viðmiðunareyðslan fyrir litla og meðalstóra fólksbíla (á bandaríska vísu) sem flestir bílaframleiðendur vilja ná er 40 mpg (40 mílur á hverju galloni) en það jafngildir 5,9 lítrum á hundraðið. Til að bílarnir nái þessu eftirsóknarverða marki hefur verið gripið til ýmissa túlkana á eyðslumælingunum og nú telur bandaríska umhverfisstofnunin EPA að Hyundai-Kia hafa gengið einum of langt og hreinlega logið minni eyðslu upp á bíla sína en fyrrnefndar mælingar höfðu leitt í ljós.

Þeir bílar sem um ræðir hér eru alls sex gerðir sem framleiddar voru 2011-1013 og allar markaðssettar sem 40 mpg bílar. Vart verður þó sagt að miklu skeiki, eða þetta einni til tveimur mílum skemmra á hverju galloni af bensíni. En engu að síður verður bílaframleiðandinn að bæta kaupendum bílanna skaðann. Hyundai-Kia er nú nauðbeygt til að hafa samband við kaupendurna hvern og einn og endurgreiða þeim mismuninn og þetta á eftir að verða bæði langdregið og dýrt ævintýri.

John Krafcik forstjóri Hyundai í Bandaríkjunum sagði á blaðamannafundi nýlega að gerð hefðu verið mistök. Honum þætti þetta ákaflega leitt en hann bra vonaði að gott orðspor Hyundai og Kia bíla hefði ekki skaðast af þessu.