Hyundai kynnir nýja kynslóð hljóðkerfis

Hyundai hefur kynnt nýja kynslóð hljóðkerfis í bílum fyrirtækisins þar sem hver og einn farþega mun geta hlustað á sína tónlist án eyrnahlífa og án þess að tónlistin trufli aðra í bílnum. Kerfið nýtist einnig þegar talað er í síma. Þá mun ökumaður einnig geta stillt kerfið þannig að aðeins hann einn heyri ákveðin hljóðmerki sem tengjast stjórnun bílsins og honum eru nauðsynleg í akstri.

Nýja hljóðkerfið, Hyundai Separated Sound Zone (SSZ), verður hluti nýrra kynslóða bíla fyrirtækisins eftir um tvö ár, ekki síst þeirra sem komnir verða með aukna ökuaðstoð frá því sem nú er. Kerfið  mun gegna lykilhlutverki í bættri upplifun farþega af ferðalagi í bíl þar sem kerfið tekur bæði tillit til beggja þarfa, þeirrar að geta „verið út af fyrir sig“ og þeirrar að njóta félagsskapar með öðrum farþegum.

SSZ-tæknin stjórnar einstökum hljóðeðlisfræðilegum svæðum bílsins og deilir ákveðnum hljóðum til ökumanns og einstakra farþega án þess að þau flæði yfir eigin skilgreind svæði í bílnum. kerfið byggist meðal annars á miklum fjölda hátalara sem kerfið nýtir sér til að draga úr eða auka tíðni á einstökum hljóðbylgjum innan hvers hljóðsvæðis þannig að hver og einn geti notið eigin þarfa í bílferðinni án þess að trufla aðra í bílnum sem hafa t.d. gjörólíkan tónlistarsmekk.

SSZ-tæknin hefur verið í þróin hjá Hyundai frá 2014 og er gert ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki eftir eitt eða tvö ár þegar áætlað er að hefja innleiðingu þess í nýja bíla Hyundai og Kia, systurfyrirtækis Hyundai.

„Tónlistarsmekkur fólks er mismunandi og venjulega er það leyst með eyrnahlífum til að njóta eigin tónlistar til að trufla ekki samferðafólk sitt. En eyrnahlífar hafa þann ókost að þær útiloka samræður við aðra meðan hlífarnar eru á eyrunum. Næsta kynslóð SSZ mun leysa þann vanda auk þess sem kerfið býður hverjum og einum að tala í símann án þess að samræðurnar berist til annarra farþega,“ segir Kang-duck Ih sem starfar í tækniþróunarsetri Hyundai. Kerfið tryggir jafnframt að ökumaðurinn heyri nauðsynleg aðvörunar- og leiðbeingarhljóð frá einstökum stjórnkerfum bílsins þótt aðrir farþegar verði þeirra ekki varir.