Hyundai Nexo nýorkubíll ársins að mati GQ

Hyundai Nexo er nýorkubíll ársins 2021 að mati breska tímaritsins GQ en þetta var kunngert á verðlaunahátið tímaritsins í London í vikunni. Bíllinn hefur víða fengið góða dóma fyrir frábæra hönnun. Hann er fimm manna vetnisknúinn rafbíll sem búinn er efnarafal sem umbreytir vetni af eldsneytistanki bílsins yfir í rafmagn sem bæði er veitt beint inn á rafmótor bílsins og inn á rafhlöðu hans, þaðan sem rafmótorinn fær einnig nauðsynlega orku til stjórnbúnaðar og aksturs.

Rafmótor Nexo er 120 kW og 163 hestöfl. Rafmótorinn togar allt að 395 Nm og skilar allt að 179 km/klst. hámarkshraða. Hröðun úr kyrrstöðu í 100 km/klst. er 9,2 sekúndur og 7,4 sek. frá 80 km hraða í 100 og er enn enginn vetnisknúinn rafbíll á markaðnum sem skákar afköstum hans í þessum flokki.

Það tekur aðeins 3-4 mínútur að fylla vetnistankinn og aldrei þarf að stinga bílnum í samband við rafmagn til að hlaða rafhlöðuna. Nexo þolir kaldstart í allt að -30°C.