Í hundraðið á rafmagninu

Hvað ræður mestu um það hvaða bíltegund og hverskonar bíl fólk velur sér? Þættir eins og verð, ending, áreiðanleiki og orðspor skipta efalaust miklu í þessu, en einnig notagildi, aksturseiginleikar, afl og eyðsla.

En hvað réð mestu um val þeirra fáu hingað til, sem fengu sér rafbíl? Skiptu umhverfismál og umhverfisvernd máli hjá kaupendum? Var það hagkvæmni, eða var voru það kannski aksturseiginleikarnir og aflið? Við höfum ekki séð margar rannsóknir á þessu hingað til, en almennt er talið að tvö fyrrnefndu atriðin hafi oftast vegið þyngst hjá kaupendunum. Aflið og aksturseiginleikarnir hafi verið aftar í forgangsröðinni.

Þetta virðist vera hald þeirra sem gefa út bandaríska vefinn Green Car Reports sem vilja nú auka veg og efla álit fólks á rafbílunum með því að leggja áherslu á hversu skemmtilegir þeir eru í akstri og viðbragðssnöggir. Þeir hafa því tekið saman lista yfir þá 12 rafbíla sem eru fljótastir að komast úr kyrrstöðu á 100 km hraða.

Á þessum lista trónir Tesla S tryggilega í efsta sætinu en hann er einungis 4,2 sekúndur að ná 100 km. Átta af bílunum eru allt að 10 sekúndur að ná hundraðinu en fjórir eru lengur. Smábíllinn Mitsubishi i-MiEV er sá rólegasti af bílunum 12 með 15 sekúndur.

  1. Tesla Model S Performance: 4,2 sek.
  2. Toyota RAV4 EV: 7,0 sek.
  3. BMW i3: 7,2 sek.
  4. Chevrolet Spark EV: 7,6 sek.
  5. Mercedes B-Class Electric Drive: 7,9 sek.
  6. Honda Fit EV: 8,5 sek.
  7. Fiat 500E: 9,1 sek.
  8. Volkswagen e-Golf: 10,0 sek.
  9. Ford Focus Electric: 10,4 sek.
  10. Nissan Leaf: 11,5 sek.
  11. Smart Electric Drive: 11,5 sek.
  12. Mitsubishi i-MiEV: 15 sek.