Íbúar á Borgarfirði eystra mótmæla ástandi vega

Hópur íbúa á Borgarfirði eystra kom saman til fundar í Njarðvíkurskriðum í gær til að mótmæla ástandi vegarins til Borgarfjarðar. Í yfirlýsingu segjast Borgfirðingar orðnir hundleiðir á að ekkert gerist í samgöngumálum fyrir staðinn.

Í aðgerðunum sem boðað var til hóf hópurinn vegagerð með því að leggja steypu yfir veginn. Með þessum táknrænu aðgerðum vildu Borgfirðingar vekja athygli stjórnvalda á slæmu vegasambandi til staðarins, en stór hluti Borgarfjarðarvegar er malarvegur sem oft á tíðum er mjög slæmur.

Í yfirlýsingu hópsins sem fram kom á Facebook segir.

„Við ætlum að byrja að steypa okkur veg. Við viljum senda umheiminum áminningu um að ekki verði unað við núverandi ástand. Borgfirðingar eru orðnir hundleiðir á að ekkert gerist í samgöngumálum fyrir staðinn. Þessa dagana er verið að vinna í fjármálaáætlun næstu þriggja ára á Alþingi en í þeirri vinnu felst yfirleitt að skera niður í samgönguáætlun. Nýtum okkur samstöðuna sem myndaðist á íbúaþingi og fjölmennum í Skriðurnar svo eftir verði tekið.“

Myndina með fréttinni tók Eyþór Hannesson.