ICE tekið fagnandi á Íslandi

http://www.fib.is/myndir/ICE.jpg


Frétt okkar hér á FÍB vefnum þann 5. maí undir fyrirsögninni Er ICE-neyðarnúmer í GSM símanum þínum? vakti þjóðarathygli og barst sem eldur í sinu um allt þjóðfélagið með tölvupósti auk þess sem flestir fjölmiðlar landsins fjölluðu um málið og tóku röggsamlega undir það. Hingað á skrifstofu rigndi inn tölvupóstum inn á netföng starfsmanna með fréttinni sem fólk hafði greinilega fengið og síðan áframsent til okkar óvitandi um það að hér hjá FÍB átti málið upphaf sitt hér á landi.

FÍB þakkar fyrir hinar góðu undirtektir og þann hljómgrunn sem þessi frétt fékk. Það er ósk félagsins og starfsmanna þess að sú ágæta hugmynd sem breskur sjúkraflutningamaður fékk sl. sumar um að fólk setti símanúmer nánasta aðstandanda síns í eigin farsíma undir nafninu eða skammstöfuninni ICE (In Case of Emergency-Í neyðartilfelli) verði einhverjum til bjargar og sjúkraflutningafólki, lögreglu, læknum og hjúkrunarfólki og öðrum hjálparliðum til hægðarauka í framtíðinni.