Iðgjöld ökutækjatrygginga hækka langt umfram vísitölur

Í nýjustu könnun Verðlagseftirlits ASÍ kemur fram að gríðarlegur verðmunur er á hæsta og lægsta verði bílatrygginga. Um 107% munur er á milli hæsta og lægsta tilboðsins í ábyrgðar- og kaskótryggingu af VW Póló árgerð 2009. Nánar er greint frá því í frétt hér á FÍB vefnum.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, sagði í þættinum Samfélagið á Rás 1 að þessi verðmunur hefði komið á óvart og þá alveg sérstaklega tilboðið frá TM. Hann sagðist hafa þær upplýsingar frá ASÍ að sá sem óskaði eftir tilboðum hafi verið að fara tryggja sinn fyrsta bíl og hefði ekki áður verið með ökutækjatryggingu.  Það er spurning hvort það sé markmiðið hjá TM að fæla unga ökumenn frá sér?

Runólfur sagði í þættinum að fákeppni og einsleitni hafi einkennt tryggingamarkaðinn hér á landi.  ASÍ lagði sama erindið og sömu forsendur fyrir öll tryggingafélögin. Þessi mikli verðmunur á milli VÍS og TM er mjög athyglisverður og líklega munu koma fram nánari skýringar á þessum tölum frá tryggingafélögunum.

Það skiptir neytandann miklu máli að leita reglulega tilboða í tryggingar sínar hjá öllum fyrirtækjunum á markaðnum. Iðgjöld ökutækjatrygginga hafa verið að hækka langt umfram vísitölu á liðnum fjórum árum.

Í viðtalinu við Runólf í Samfélaginu á Rás 1 er farið um víðan völl í tryggingarmálum og öðru sem lítur að ökutækjum. Fram kom að vísitala neysluverðs hefði hækkað um 7% frá 2014 en ábyrgðartryggingar ökutækja um 26,5% á sama tímabili. Vísitala nýrra bíla lækkaði á þessum sama tíma um 13,3% og vísitala varahluta lækkaði um 21,9%. 

Fram kom í þættinum að fólksbílum í umferð og þar með tryggingaskírteinum vegna bíla hefði fjölgað síðustu árin eftir töluverðan samdrátt í kjölfar hrunsins 2008.  Samkvæmt Samgöngustofu þá hefur meðalakstur á hvern skráðan fólksbíl í umferð verið að dragast saman á síðustu árum samhliða fjölgun skráðra bíla í umferð. Eftirlit með starfsemi tryggingafélaganna á að vera hjá fjármálaeftirlitinu en þar á bæ virðast menn anda léttar þegar sjóðir félaganna gildna.  Mikil hækkun iðgjalda ætti að vera til sérstakrar skoðunar hjá opinberum eftirlitsaðila sérstaklega af lögbundnum  tryggingum sem allir bíleigendur verða að kaupa lögum samkvæmt. 

Viðtalið við Runólf Ólafsson í Samfélaginu á Rás 1 má nálgast hér. Viðtalið hefst þegar 27:50 mínútur eru liðnar af þættinum.