Iðgjöld tryggingafélaga á Íslandi hafa hækkað um 38% frá árinu 2015

 Iðgjöld tryggingafélaga á Íslandi hafa hækkað um 38% frá árinu 2015, á sama tíma fækkaði umferðarslysum um 15% og slösuðum um 23%. Hækkunin er umfram vísitölu neysluverðs að því er fram kemur í máli Runólfs Ólfssonar framkvæmdastjóra FÍB. Hann segir að samkeppni á íslenskum tryggingamarkaði sé lítil sem enginn.

 Í viðtali á ruv.is segir Runólfur að íslenskir neytendur greiði 50-100% hærri iðgöld en neytendur annars staðar á Norðurlöndunum. Könnun, sem gerð var á liðnu ári, sýni að það skýrist ekki af öðru en óeðlilegri álagningu.

Runólfur bendir á að almenningur eigi veigamestan hluta tryggingafélaganna í gegnum lífeyrissjóðina. Þó hafi bankar eignast tryggingafélög, eða slík fyrirtæki sameinast, dæmi þess sé sameining Kviku-banka og Tryggingamiðstöðvarinnar nýverið.

Í umfjöllun FÍB- blaðsins segir að skýringar tryggingafélaga á hækkun iðgjalda standist ekki, slysum hafi fækkað, fjöldi bíla staðið í stað og veiking krónunnar orðið til þess að bifreiða- og varahlutaverð stendur í stað.

Síðustu ár hafi kostnaður félaganna lækkað og hagnaður þeirra aukist en lítil sem engin samkeppni sé á tryggingamarkaðnum. Jafnframt er fullyrt í umfjöllun FÍB að fjármálaeftirlit Seðlabankans hafi hvatt félögin til að hækka iðgöld eða láta verðsamkeppni eiga sig.

Félagið hafi gagnrýnt eftirlitið mjög, segir Runólfur í samtali við fréttastofu RÚV, enda um skyldutryggingar að ræða. Val eftirlitsins hafi verið að hvetja til þess að tryggt væri að hægt væri að greiða kostnað vegna tjóna.

Þó hafi nýlega verið brýnt fyrir félögunum að ganga ekki of langt í arðgreiðslum. Áhersla eftirlitsins sé á verndun stöðugleika á fjármálamarkaði og gjaldþol félaganna, að því er fram kemur í máli Runólfs Ólafssonar.

Þá eigi tryggingafélögin bótasjóð sem um áramót hafi staðið í um 48 milljörðum króna og dugi til að standa undir greiðslum vegna tjóna í sjö til níu ár.

Verðlagning tryggingafélaganna hefur sveiflast nokkuð síðustu áratugi, til að mynda hafi iðgjöld lækkað þegar erlend samkeppni kom inn á markaðinn undir lok síðustu aldar, að sögn Runólfs.

FÍB ráðleggur bílaeigendum að óska reglulega eftir tilboðum frá öllum tryggingafélögunum og taka því lægsta.