Iðnaðarnjósnir hjá Renault og Nissan

Reuters fréttastofan greinir frá því að bæði Nissan og Renault, sem rekin eru í náinni innbyrðis samvinnu, séu fórnarlömb iðnaðarnjósna. Njósnirnar hafi einkum beinst að þróun rafbíla og rafbílatækni. Carlos Ghosn forstjóri begga fyrirtækja sagði við Reuters í gær að starfsmenn beggja séu mjög slegnir yfir þessu.

Málið hófst hjá Renault í Frakklandi sem kærði hinar meintu njósnir. Nú virðist sem málið sé umfangsmeira og nái einnig til Nissan. Carlos Ghosn sagði við Reuters í gær að starfsmenn beggja, ekki síst starfsmenn Nissan hefðu sýnt mikinn liðsanda. „Við erum öll í sama liðinu og höfum verið að vinna að því að þróa tækni fyrir rafbíla,“ sagði Ghosn. Hann sagði að eftir að upp komst um njósnirnar hefðu tæknimenn Nissan og Renault snúið bökum saman og ynnu nú saman sem aldrei fyrr, sem ein heild. Mikið er í húfi því að Renault/Nissan hefur lagt um fjóra milljarða evra í rafbiílarannsóknir.

Ekki kemur fram í fréttinni hver eða hverjir standi að baki njósnunum en þrír lykilstarfsmenn hafa verið reknir eftir að upp komst um lekann. Þeir eru Michel Balthazard sem var framkvæmdastjóri rannsóknasviðs og aðstoðarmaður hans; Bertrand Rochette. Þriðji brottrekni maðurinn er Matthieu Tenenbaum aðstoðarforstjóri rafbíladeildar Renault/Nissan.  Allir þrír hafa harðneitað sökum og hótað málaferlum gegn Renault fyrir rangar sakargiftir.

Renault kærði fyrir nokkru meintar njósnir sem fyrr segir og er opinber rannsókn hafin. Ekki hefur verið gefið upp um hver hafi staðið fyrir þessum meintu njósnum, heldur einungis sagt að erlent ríki eigi í hlut.