Iðnaðarráðuneytið og Mitsubishi semja um rafmagnsbíla

http://www.fib.is/myndir/Mitsub.Miev.jpg
Mitsubishi i-Miev rafbíll.

Sl. föstudag undirrituðu fulltrúar Mitsubishi Motors í Japan og Össur Skarphéðinsson iðnaðar- og orkumálaráðherra viljayfirlýsingar um að prófa rafbílinn Mitsubishi  i-Miev hér á landi. Við sama tækifæri undirritaði ráðherrann og fulltrúar Mitsubishi Heavy Industries aðra viljayfirlýsingu um að koma upp þjónustuneti eða innviðum fyrir rafbíla um landið og veita tæknilega aðstoð við að útrýma koltvísýringslosun, m.a. frá álverum. Hugmyndin er sú að safna koltvísýringnum saman og breyta honum í eldsneyti fyrir skipaflotann sem og iðnaðinn, þar með talinn fiskiðnaðinn. Mitsubishi Heavy Industries hefur þegar þróað tækni og búnað til hvors tveggja.

Undirritunin fór fram á lokadegi ráðstefnunnar um sjálfbærar samgöngur, Driving Sustainability, sl. föstudag. Iðnaðarráðherra sagði áður en undirritunin átti sér stað, að það hljómaði eins og fjarlægur draumur að gera landið nánast laust við CO2 útblástur og fá svo að auki í bónus hreint eldsneyti fyrir skipaflotann og iðnaðinn. En þessi draumur væri þó ekki fjarlægari en svo að útlit væri fyrir að hann gæti ræst.

Jón Trausti Ólafsson  markaðsstjóri Heklu hf, umboðsaðila Mitsubishi, sagði í samtali við fréttavef FÍB fyrir stundu að undirbúningur þessa máls væri þegar á fullu og gert væri ráð fyrir því að hingað til lands komi á næsta ári 2-3 bílar til prófana. En áður en bílarnir sjálfir koma þarf að vera tilbúin og tiltæk þjónusta við þá eins og áfyllingar- og rafhlöðuskiptistöðvar.

Aðspurður um verð á þessum bílum sagði Jón Trausti að þeir séu enn sem komið er dýrari en hefðbundnir bílar sem sambærilegir eru að stærð. Verðmismunurinn liggi ekki síst í rafhlöðunum. Með aukinni fjöldaframleiðslu muni verðið þó efalítið lækka smám saman. En meðan rafbílarnir eru enn á tilrauna- og rannsóknastigi sé stuðningur stjórnvalda, svipaður þeim stuðningi sem stjórnvöld létu vetnistilraunum í té á sínum tíma, nauðsynlegur. Jón Trausti segir ljóst að  rafbílatæknin eigi eftir að þróast hratt á næstu árum þannig að hagkvæmni og notagildi rafbílanna ætti að vera tiltölulega vel á hreinu í ekki svo fjarlægri framtíð.

Mikið kapphlaup á sér nú stað milli bílaframleiðenda um hver verður fyrstur á markað með rafmagnsbíla sem standast bensín- og dísilbílum snúning. Segja má eiginlega að Mitsubishi sé orðinn fyrstur í þessu kapphlaupi því að bíllinn er þegar kominn í umtalsverða fjöldaframleiðslu og tilraunaakstur í Japan er á lokastigi. Þá hefur bíllinn verið í tilraunaakstri í Bretlandi undanfarið og er væntanlegur í almenna sölu þar á næsta ári.

Bílablaðamanni FÍB gafst kostur á stuttum reynsluakstri á Mitsubishi i-Miev sl. föstudag og reyndar á litla indverska tveggja manna rafbílnum Reva einnig. Skemmst er frá að segja að i-Miev er fyllilega boðlegur og fullburða nútíma smábíll. Hann er það viðbragðssnöggur að hann stenst  öllum venjulegum bílum snúning, í honum er ágætt rými og fjöðrunin er prýðileg. Þá er í honum miðstöð eins og venjulegum bíl en hún sækir varmann í kælikerfi líþíum-rafgeymanna. Í akstri var i-Miev að öllu leyti eins og venjulegur nýtísku smábíll, nema miklu hljóðlátari.

i-Miev kemst 160 kílómetra á rafhleðslunni og sé hann tengdur til hleðslu í venjulegan 220V heimilistengil tekur um sjö klst að hlaða tóma geymana. Með því að stinga í samband við hraðhleðslutengil tekur einungis um hálftíma að ná þeim í 80% hleðslu.

Þyngd i-Miev fullbúnum til aksturs og með fullhlaðna geymana er 1.080 kíló. Einn rafmótor er í bílnum sem knýr hann afram. Hann er 47 kílówatta eða 63 hestöfl. Mesta vinnsla eða tog mótorsins er 180 Nm og drifið er á afturhjólunum. Á líþíumgeymunum fullhlöðnum eru 16 kílówattstundir af raforku. Hámarkshraði er 130 km á klst.