IKEA í Svíþjóð með rafbílasýningu

Á fimmtudaginn, 21 mars, verður opnuð hjá IKEA í Älmhult í Suður Svíþjóð, ekki langt frá Helsingör/Helsingborg, stór rafbíla- og farartækjasýning. IKEA stendur að sýningunni í samvinnu við sveitarfélagið og samtök um vistvænar samgöngur. Sjálfsagt er það ekki tilviljun að sýningin er haldin í Älmhult, en bærinn er fæðingarbær stofnanda IKEA; Ingvars Kamprad.

Þetta mun vera í annað sinn sem IKEA í Älmhult stendur að rafmagnsfarartækjadegi sem þessum. Á fimmtudaginn munu milli 30 og 40 framleiðendur sýna bíla sína og hverskonar vistvæn farartæki. Meðal sýnenda er Renault sem sýnir rafbílinn Fluence og borgarfarartækið Twizy, Tesla, Volkswagen og margir fleiri. Á sýningunni verður fluttur fjöldi fyrirlestra og umræður fara fram um rafbíla og hvaða möguleika þeir eiga í samkeppninni við hefðbundna bíla. Þá gefst gestum kostur á að reynsluaka flestum þeirra farartækja sem sýnd verða.