Imperia GP

Gamalt belgískt bílmerki, Imperia, sem fór á hausinn árið 1958, var endurvakið árið 2009 og er nú að hefja framleiðslu á gamaldags útlítandi ofursportbíl sem nefnist GP (Green Propulsion). GP er bæði knúinn bensínvél og rafmótor og kostar frá 95 þúsund evrum sem er um 15,4 milljónir ísl. kr.

GP er mikið tryllitæki, búið 1,6 l 200 ha. túrbínubensínvél frá BMW með 350 Nm vinnslu. Auk bensínvélarinnar er 150 ha./350 Nm rafmótor. Þegar báðir mótorarnir vinna saman senda þeir 350 hestöfl út í afturhjólin og 610 Newtonmetra vinnslu. Í þeim ham er bíllinn fjórar sekúndur að ná 100 km hraða. Á rafmótornum einum er 0-100 viðbragðið sex sek. Hámarkshraðinn er takmarkaður við  216 km á klst. en gæti verið mun meiri. Rafhlöðurnar duga til 60 km aksturs á rafmagni einu og hleðslutími þeirra er fjórar og hálf klst.

En þótt aflið sé sannarlega ekki skorið við nögl er bíllinn engu að síður sparneytinn. Uppgefin bensíneyðsla í blönduðum akstri er 1,9 l á hundraðið og CO2 útblástur 50 g/km.

Fyrstu bílarnir verða afgreiddir til kaupenda undir lok ársins. Framleiddir verða á árinu 100 Imperia GP bílar en ætlunin er að auka framleiðsluna upp í 200 á næsta ári.