Indverskar dauðagildrur

Global NCAP er stofnun sem árekstrarprófar og metur öryggi nýrra bíla með sama hætti og gert er hjá Euro NCAP. Fimm nýir bílar sem allir eru framleiddir í Indlandi fyrir markaðinn þar hafa nú verið árekstursprófaðir og niðurstaðan er skelfileg. Enginn bílanna náði einni einustu stjörnu.

NCAP öryggisprófanir hafa í áranna rás notið stöðugt vaxandi tiltrúar bæði neytenda og bílaframleiðenda ekki síður. Þeir leggja sig fram um að byggja bíla sem standast allar öryggiskröfur NCAP og ná fullu húsi eða fimm stjörnum í prófunum. Nú orðið þykir það því sæta nokkrum tíðindum ef nýr bíll nær ekki fimm stjörnum. Þannig varð það að nokkuð stórri frétt í Evrópu þegar nýi BMW i3 rafbílinn náði ekki fimmtu stjörnunni og fékk fjórar á sl. ári. En meiri tíðindi þóttu það þegar sendibíllinn Mercedes Citan fékk einungis þrjár stjörnur.

http://www.fib.is/myndir/GlobalNCAP1.jpg

Indversku bílarnir fimm sem Global NCAP árekstursprófaði eru allt mjög vinsælir  bílar og er samanlögð markaðshlutdeild þeirra fimmtungur allra nýrra seldra bíla í Indlandi. En enginn þeirra hefur fram að þessu fengist með loftpúðum sem staðalbúnaði, hvað þá öðrum búnaði eins og t.d. skrikvörn. Árangurinn í öryggisprófinu er þar eftir.

Hin ofur-ódýri Tata Nano, Suzuki-Maruti Alto 800 og Hyundai i10 hlutu enga einustu stjörnu og hefðu heldur ekki fengið þótt þeir hefðu verið búnir loftpúðum. Ofantaldir bílar eru allir það veikbyggðir og burðarvirki þeirra það veikburða að bæði ökumenn og farþegar eru í bráðri lífshættu ef árekstur á sér stað.

Heldur skárri reyndust Ford Figo (byggður á Fiesta) og Volkswagen Polo, en þó alls ekki eins og vænta mætti um bíla frá þessum framleiðendum. Global NCAP metur þessa bíla þannig að þeir séu ámóta öruggir og svipaðir bílar voru fyrir 20 árum. Ætla mætti að bragarbót í þessum efnum sé nauðsynleg í landi þar sem yfir 140.000 manneskjur láta lífið í umferðarslysum ár hvert.

Max Mosley er stjórnarformaður Global NCAP. Hann segir það vera áhyggjuefni að á þessum stóra markaði skuli það viðgangast að nýir bílar séu 20 árum á eftir tímanum í öryggislegu tilliti miðað við Evrópu og N. Ameríku. „Það er óhæfa að bjóða neytendum upp á veikburða og loftpúðalausa bíla. Neytendur eiga rétt á því að fá að vita hversu öruggir bílar þeirra eru og þeir eiga að geta vænst þess að bílarnir sem þeim standa til boða séu jafn góðir og þeir sem standa neytendum í öðrum löndum til boða.“

Volkswagen hefur nú svarað niðurstöðunni og útbýr alla nýja Polo bíla á Indlandsmarkaðinum með loftpúðum. Global NCAP hefur  endurtekið öryggisprófið á bílnum og í ljós kom að með tveimur loftpúðum nær bíllinn fjórum stjörnum fyrir vernd fullorðinna í bílnum.