Indverskir bílar til Evrópu

Það eru ekki bara Kínverjar sem renna hýru auga til evrópsks bílamarkaðar, heldur líka Indverjar nú í seinni tíð.
Stærsti bílaframleiðandi í Indlandi er Tata. Tata sýndi hugmyndabíl á Genfarbílasýningunni í vetur – sjö manna fjölnotabíl sem senn fer í fulla framleiðslu undir gerðarheitinu Xover. Til að verða betur gjaldgengur í Evrópu verður Xover boðinn með dísilvél. Búist er við honum á Evrópumarkað eftir um það bil þrjú ár.
Xover er hannaður hjá ítalska hönnunarfyrirtækinu I.DE.A Institute í Torino. Hann er sem fyrr segir sjö manna, með sítengdu aldrifi. Lengdin er 4,85 m og því á stærð við Chrysler Voyager.