Innkoma Costco dregur úr álagningu íslensku olíufélaganna

Innkoma Costco hefur haft jákvæð áhrif á samkeppni sem skilar sér í verðlækkun til neytenda.
Innkoma Costco hefur haft jákvæð áhrif á samkeppni sem skilar sér í verðlækkun til neytenda.

Fram kom í fréttum RÚV í gær að Costco hafi óskað eftir því að fá að fjölga dælum við eldsneytissölu félagsins við Kauptún í Garðabæ.  Erindið var tekið fyrir hjá bæjarráði Garðabæjar og samþykkt að vísa því til afgreiðslu hjá byggingafulltrúa. Jafnframt var tækni- og umhverfissviði bæjarins falið að kanna mögulegar úrbætur á umferðarmannvirkjum til að bæta umferðarflæði á svæðinu. 

Costco opnaði eldsneytissöluna við Kauptún fyrir um mánuði síðan.  Frá byrjun hefur Costco boðið bíleigendum hagstæðara verð á bensíni og dísilolíu en aðrir eldsneytissalar.  Neytendur hafa tekið Costco opnum örmum og það hefur verið stöðug röð við dælurnar frá opnun.

Bensínlítrinn hjá Costco kostar núna 164.90 krónur en Orkan X er næst ódýrust og þar kostar bensínið 175.20 krónur.  Munurinn á lítraverðinu er 10.30 krónur.  Þegar Costco hóf starfsemi hér á landi var bensínlítrinn boðinn á 169.90 krónur en hjá Orkunni X kostaði lítrinn þá 185.70 krónur sem er mismunur upp á 15.80 krónur.  Samkvæmt þessu þá hefur álagning Orkunnar X dregist saman um 5.40 krónur á þessum mánuði. 

Dísillítrinn hjá Costco kostar núna 155.90 krónur en 162.70 krónur hjá Orkunni X.  Mismunurinn er 6.80 krónur á lítra.  Til samanburðar þá kostaði dísillítrinn hjá Costco í upphafi 164.90 krónur en var þá hjá Orkunni X á 173.10 krónur.  Þarna er verðmunurinn 8.20 krónur þannig að álagning Orkunnar á dísilolíu hefur lækkað um 1.40 krónur.

Verðmunurinn á bensínlítranum hjá Costco og ÓB var í upphafi 28 krónur en er núna 20.30 krónur.   Munurinn á dísillítranum hjá Costco og ÓB var í upphafi 25.50 krónur en er núna 21 króna.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um markaðshlutdeild Costco á Íslenska eldsneytismarkaðnum en ljóst að innkoma þeirra hefur haft jákvæð áhrif á samkeppni sem skilar sér í verðlækkun til neytenda.