Insignia – best heppnaði Opelinn síðan Rekord var og hét

http://www.fib.is/myndir/Opel-insignia.jpg
Opel Insignia.

Eins og nú horfir stefnir hinn nýi Opel Insignia í það að vera einn best heppnaði bíll hjá Opel mjög lengi. Bíllinn er sá söluhæsti í Evrópu í janúar og febrúar og eftirspurn eftir Insignia er líkust því sem engin kreppa sé í bílasölunni í Evrópu. Frá því um miðjan síðasta mánuð hefur  80 þúsund manns verið á biðlista eftir nýjum Opel Insignia sem eru alger umskipti frá því sem verið hefur um mjög langt árabil hjá Opel.

Opel Insignia er eiginlega arftaki Opel Vectra að stærstum hluta en einnig Opel Omega sem leysti af hólmi Opel Rekord fyrir margt löngu en var hálf mislukkaður. Sjálfsagt var það sem helst felldi Opel Omega á sínum tíma, að bíllinn var alls ekki að fullu þróaður þegar honum var dembt á markaðinn. Afleiðingar þess lýstu sér í hárri bilanatíðni og meðfylgjandi vandræðum fyrir bæði Opel og GM í Evrópu og fyrir eigendur bílsins.
http://www.fib.is/myndir/Opel-Insignia_Sports_Tourer.jpg
Þá voru tímareimavandamál landlæg í Opel bílum um langt árabil, en eftir mikið gæðaátak urðu þau úr sögunni um síðustu aldamótum. Lengri tíma hefur síðan þuft til að vinna bug á því orðspori sem þessi gæðavandamál sköpuðu, en svo virðist sem að með Insignia hafi það loks tekist og Opel fylgir velgengni bílsins eftir með nýjum undirgerðum hans. Nú eru t.d. að koma á markað skutbílsútgáfa sem nefnist Sports Tourer og svo hreinræktuð fjórhjóladrifin sportútgáfa Insignia með á fjórða hundrað hestöflum. Þeim bíl er stefnt gegn Audi S bílnum.

Ágætt úrval véla er í boði fyrir Insignia. Sú minnsta er 1,6 lítrar að rúmtaki, 115 hö. Sú algengasta sem kalla mætti staðalvélina er svo 1,8 lítra að rúmtaki, 140 hö, en sú næst-aflmesta á eftir þeirri sem í sportútgáfunni er, er 260 ha. Alls eru sjö gerðir bensínvéla í boði og sex gerðir dísilvéla. Allir handskiptir gírkassar eru sex gíra en auk þeirra eru sjálfskiptingar í boði eins og vera ber.

Reynsluakstur þessa vel heppnaða bíls hefur ekki enn staðið íslenskum bílablaðamönnum til boða en evrópskir kollegar þeirra láta afar vel af bílnum, segja allar gerðir hans sérlega hljóðlátar og góðar í akstri og aflmestu gerðirnar auk þess mjög sprettharðar á þysku hraðbrautunum þar sem enn hefur ekki verið sett hámarkshraðamörk.