Ísland ekki mesta bílaland Norðurlanda

Ísland er ekki mesta bílaland Norðurlandanna eins og við höfum mörg trúað lengi. Mesta bílalandið er nefnilega Finnland því þar eru flestir fólksbílar á hverja þúsund íbúa eða 650.

Ísland er í öðru sæti í þessum samanburði með 640 bíla á hverja þúsund íbúa. Noregur er í því þriðja með 543 bíla á þúsund íbúa, Svíþjóð kemur næst með 461 bíl á þúsund íbúa. Fæstir eru svo bílarnir í Danmörku á hvern íbúa eða 389.

Þetta kemur fram í skýrslu sem nálgast má á vef Vegagerðarinnar. Skýrslan nefnist Samanburður á umhverfisstjórnun vega- og gatnagerðar á Norðurlöndunum. Hún var unnin af hópi fólks frá Vegagerðinni, Reykjavíkurborg og tveimur verkfræðistofum.

Það kom skýrsluhöfundum á óvart að Ísland skyldi ekki vera mesta bílaþjóðin þar sem landið er fámennt, dreifbýlt og án lestarsamgangna. Hvað Danmörku varðar þá þarf niðurstaðan hins vegar ekki að koma á óvart. Landið er lítið og þéttbýlt og almannasamgöngunetið (lestar og strætisvagnar) er afar þétt, sérstaklega í og umhverfis höfuðborgina og aðrar stórar borgir og þéttbýliskjarna - svo þétt að auðveldlega má komast af víðast hvar án þess að eiga og nota bíl. Þá er reiðhjólanotkun mjög almenn meðal Dana.