Íslenskir Kia eigendur voru og verða frjálsir

Strax eftir dóm sænska samkeppnisdómstólsins 4. des. sem dæmdi ábyrgðarskilmála og verklagsreglur Kia í Svíþjóð ólöglegar breytti hinn sænski innflytjandi Kia verklagi sínu. Framvegis er sænskum eigendum Kia bíla frjálst að fara með þá á hvert það þjónustuverkstæði sem þeir sjálfir kjósa, án þess að ábyrgð framleiðanda skerðist, svo fremi sem viðkomandi verkstæði uppfyllir gæðakröfur og staðla Kia varðandi vinnu, varahluti, efni og varðveislu upplýsinga.

Jón Trausti Ólafsson framkvæmdastjóri Öskju, innflytjanda Kia bíla á Íslandi, segir í samtali við FÍB vefinn að hjá Öskju hefðu menn alla tíð túlkað umrædda ábyrgðarskilmála og verklagsreglur við þjónustu á ábyrgðartíma á sama hátt og Kia í Svíþjóð er byrjað að gera eftir dóminn í fyrradag. Því hefði eigendum Kia bíla lengstum verið það frjálst að láta þjónusta bílana á verkstæðum utan þjónustunets Öskju án þess að ábyrgð skertist, svo fremi sem vinnubrögð, varahluta- og efnanotkun uppfyllti fyrirmæli framleiðanda.

Eina skilyrðið fyrir því að sjö ára framleiðsluábyrgðin haldi út gildistímann hjá Kia í Svíþjóð er nú eftir dóminn sú að þjónustuforskriftum framleiðandans sé fylgt, sem og fyrirmælum um verklag við þjónustu og viðgerðir. Þá skulu þeir varahlutir sem notaðir eru, vera að minnsta kosti jafn góðir og samskonar upprunalegir Kia varahlutir og íhlutir. Þá skulu óháðu verkstæðin geyma upplýsingar um hvað var gert við bílinn og geta kallað þær fram ef þörf krefur innan ábyrgðartímans. Jón Trausti segir að einmitt þetta sé sú lína sem Kia á Íslandi hafi jafnan fylgt. Því eigi sænski dómurinn tæpast eftir að breyta miklu hér á landi.

Peter Himmer forstjóri Kia Motors Sweden AB segir í samtali við Motormagasinet að vitanlega muni fyrirtæki hans fara eftir dómnum og virða niðurstöðu hans. Hann voni þó að eigendurnir muni halda áfram að sækja þjónustu við bílana hjá þeim verkstæðum sem Kia hafi viðurkennt. Þar sé besta þekkingin og besta aðgengi að varahlutum til staðar.