Íslenskt keppnislið á Silverstone í sumar

Dagana 10.-13 júlí í sumar fer fram árlega kappaksturskeppnin Formula Student á Silverston kappakstursbrautinni bresku. Þetta er keppni fyrir háskólanema á heimasmíðuðum bílum og verða bílarnir að uppfylla allar þær ofurströngu reglur sem alþjóða mótorsportsambandið FiA gerir til keppnisbíla og tækjabúnaðar. Liðið Team Spark frá Háskóla Íslands tekur þátt í þessari merku formúlukeppni í sumar í fjórða sinn. Einn af 5 ökumönnum íslenska Formúlu-stúdentsbílsins verður Róbert Már Runólfsson nemi í vélaverkfræði sem undanfarin ár hefur reynsluekið bílum og skrifað um þá fyrir FÍB blaðið.

Í Team Spark liðinu eru alls 33 háskólanemar sem flestir stunda nám í véla-, iðnaðar-, rafmagns-, tölvu- og hugbúnaðarverkfræði. Liðsstjóri er Ragnheiður Björk Halldórsdóttir. Hópurinn hefur hannað bílinn og byggt frá grunni, það er að segja burðarvirki hans og skrokk, fjöðrunar- og stýrisbúnað, drif- og hjólabúnað sem og stýrikerfi fyrir rafmótor hans og rafgeyma. Til þessara flóknu umsvifa hefur hópurinn m.a. notið liðsinnis styrktaraðila en meginstyrktaraðili verkefnisins er tæknifyrirtækið Marel.

Keppnin á Silverstone brautinni er bæði hönnunar- og kappaksturskeppni og bíllinn sem íslenski hópurinn fer með út í sumar er sá fjórði sem hann hefur hannað og byggt og jafnframt sá fyrsti sem uppfyllir allar kröfur sem keppnisbíll. Hundruð liða eru skráð til keppni og mörg þeirra mjög harðsnúin þannig að úrslitin eru sannarlega ekki gefin fyrirfram. Norska liðið (46 manna) sem þátt tekur er þó  afar borubratt og segist sjá fyrir sér sigur, ekkert minna.

Í raun má segja að Formula Student sé eins konar inntökupróf inn í heimslið bílaverkfræðinga og bílahönnuða framtíðarinnar. Meðal stórra styrktaraðila sjálfrar keppninnar eru heimsþekkt fyrirtæki í bílaiðnaðinum eins og Bosch, GKN, Jaguar, Land Rover, Mercedes Benz, og fleiri og þarf ekki að draga það í efa að tilgangur þeirra með því að styrkja svona keppni er á öðrum þræði sá að leita sér að góðum og öflugum lykilstarfsmönnum til framtíðar.