„Íslenskur“ bíll á IAA

Hann leit eitthvað kunnuglega út, þessi rauði Toyota Hilux pallbíll sem við rákumst á á bílasýningunni í Frankfurt sem nú stendur yfir. Við bílinn stendur að þetta sé Polar Hilux og á skiltinu við hann eru upplýsingar um bílinn og á aurhlífunum stendur nafn íslenska bílafyrirtækisins Arctic Trucks.

Emil Grímsson stjórnarformaður Arctic Trucks staðfesti að þetta væri einmitt einn þeirra bíla sem stjórnendur TopGear bíla-skemmtiþáttarins á BBC, þeir James May, Jeremy Clarkson og Richard Hammond óku á til norðurpólsins fyrir ekki svo mjög margt löngu. Emil sagði að bíllinn hefði verið í Evrópu um nokkurt skeið, m.a. til að athuga með skráningu á bílum af þessu tagi í nokkrum Evrópulöndum. Bíllinn væri nú i umsjá Toyota Europe. Þar hefði verið ætlun manna að setja hann á bílasýningu og nú væri semsé komið í ljós hvaða sýning það væri.

IAA bílasýningin í Frankfurt, sem haldin er annað hvert ár, er sú stærsta og fjölsóttasta í Evrópu og ein sú allra stærsta í heiminum. Sýningin sem nú stendur var opnuð almenningi sl. miðvikudag og stendur í viku. Hún hefur verið mjög fjölsótt til þessa og er reiknað með að hún verði ein sú fjölsóttasta IAA sýningin til þessa.

http://www.fib.is/myndir/Toyota-Polar-Hilux.jpg