Íslenskur vegasérfræðingur ráðinn prófessor við VTI í Svíþjóð

http://www.fib.is/myndir/Sigur%F0urErlingsson.jpg
Sigurður Erlingsson nýráðinn prófessor við VTI í Svíþjóð.

Hönnun vega, rekstur þeirra og viðhald er meðal þeirra atriða sem sænska vegtæknistofnunin VTI fæst við og rannsakar. Stofnunin hyggst stórefla þessar rannsóknir, ekki síst með það að markmiði að auka hagkvæmni í gerð vega, gatna og flugvalla og að gera vegina öruggari og umhverfismildari. Stofnað hefur verið prófessorsembætti við stofnunina og ráðinn hefur verið sérfræðingur á þessu sviði til að gegna henni og leiða rannsóknastarfið. Svo skemmtilega vill til að nýi prófessorinn er Íslendingurinn Sigurður Erlingsson.

Frá þessu er greint í frétt á heimasíðu VTI. Þar segir jafnframt að með því að efla rannsóknir á vegum VTI og að ráða Sigurð styrki stofnunin samkeppnisstöðu sína innan alþjóðlega vísindasamfélagsins. Sigurður sé vel þekktur og og njóti alþjóðlegrar viðurkenningar sem vísindamaður á vegtæknilegum sviðum. Til hans sé mikið leitað ráða hjá bæði af hálfu Svía og hvaðanæva annarsstaðar í heiminum.

– Með komu Sigurðar Erlingssonar til okkar verðum við mun eftirsóknarverðari sem ráðgjafarstofnun, bæði á heimavelli og á alþjóðlegum markaði. Við höfum nú sett okkur langtímamarkmið og sækjum fram. Við sjáum fyrir okkur að í framtíðinni munum við hafa úr stærri hluta þess fjár að spila, sem varið er til vegtæknilegra rannsókna í Evrópu, segir Marianne Grauers deildarstjóri innra skipulags VTI á heimasíðunni.

Sigurdur Erlingsson er upphaflega jarðeðlisfræðingur frá Háskóla Íslands og síðar vegaverkfræðingur og doktor frá KTH - Kungliga Tekniska högskolan í Svíþjóð. Hann hefur undanfarið starfað sem prófessor við verkfræðideild HÍ og mun halda áfram að gegna þeirri stöðu að hluta samhliða prófessorsstöðunni við VTI, að því segir í fréttinni á heimasíðu VTI.