Ítalir rukka gamla vegatolla

http://www.fib.is/myndir/Italia.jpg

Talsverður fjöldi félagsmanna í FDM í Danmörku hefur verið að fá innheimtubréf og gíróseðla með póstinum að undanförnu frá  Autostrada per L’Italia eða hraðbrautum Ítalíu vegna vangreiddra vegatolla árið 2006. Frá þessu er greint á heimasíðu FDM, systurfélags FÍB í Danmörku.

Allir þeir sem um ræðir staðfesta að hafa verið á Ítalíu á þeim tímum sem tilgreindir eru í innheimtubréfum þessum en botna að öðru leyti lítið í þessum rukkunum. Sumir segjast ekki hafa skilið vel fyrirmæli á skiltum á tollstöðvunum um hvað þeir ættu að gera en verið hleypt í gegn um hliðið inn á veginn. Aðrir minnast einhverra tæknivandræða þegar þeir reyndu að greiða vegatollinn með greiðslukorti og þegar bóman í hliðinu síðan lyftist töldu þeir sig þar með hafa greitt og leiddu hugann ekki frekar að því. Sameiginlegt með öllum þeim sem FDM hefur rætt við og fengið hafa þessa innheimtu er það að allir telja sig hafa greitt vegartollinn.

Þótt tvö ár séu liðin frá því að þessi meintu brot áttu sér stað eru þau alls ekki fyrnd. Hafi einhver sem þetta les fengið senda kröfu af þessu tagi er um tvennt að velja. Telji hann kröfuna vera rétta er honum ráðlagt að greiða hana. Telji hann sig ekki skulda ítölsku hraðbrautunum krónu er ráðlegast að mótmæla henni eins fljótt og verða má. Á kröfunni stendur hvert skuli beina mótmælum og hversu langur kærufresturinn er. Ítölsku hraðbrautirnar hafa hingað til ekki verið að vesenast í innheimtum af þessu tagi. Ástæðan er efalaust sú að upphæðirnar eru það litlar að vart hefur þótt taka því að leggja fyrirhöfn og fé í það.

En að því er FDM greinir frá hefur Autostrada per L’Italia selt gamlar vegatollakröfur til innheimtufyrirtækis sem heitir Nisi Credit og er til alls líklegt með að fylgja kröfunum eftir af hörku. Þeim félagsmönnum FÍB, ef einhverjir eru, sem fengið hafa kröfur um vangreidda vegatolla á Ítalíu 2006 er velkomið að hafa samband við lögfræðilegan ráðgjafa félagsins. Hægt er að panta viðtalstíma við hann í síma 414 9999.