Jaguar bestur hjá J.D. Power

Bandaríska neytendarannsóknastofnunin J.D. Power hefur ennþá einusinni metið Jaguar sem bestu bílategundina og sölu- og þjónustuaðila fyrir Jaguar þá bestu. Eigendur Jaguarbíla eru ánægðustu bíleigendurnir. Undanfarin sex ár hefur Jaguar hafnað fimm sinnum í efsta sætinu.

Árleg ánægjurannsókn J.D. Power meðal bandarískra eigenda nýrra bíla er sama eðlis og Auto-Index í Evrópu. Spurt er um bílinn sjálfan og hvernig hann hafi reynst, hvernig viðmót og framkoma sölu- og þjónustuaðila hafi verið, hvort allt í sambandi við greiðslu og fjármögnun bílakaupanna hafi gengið fyrir sig og hvernig afhendingin fór fram – var hún á réttum tíma og var bíllinn sá sem lofað var og í því ástandi sem lofað var?

Rannsókn JD Power náði að þessu sinni til 48 þúsund bílakaupa á alls 38 bíltegundum. 29 bíltegundir komu að þessu sinni betur út en þær gerðu í sömu könnun á síðasta ári. Mestur bati varð hjá Mini sem kleif þannig upp um 16 sæti á þessu eina ári.

En það er ekki bara gæði þjónustunnar við bílakaupendur sem mælist í könnunum J.D. Power heldur líka atriði eins og hversu mörg bílaumboð kaupendur heimsóttu áður en þeir ákváðu að gera út um bílakaup. Í ljós kemur að kaupendur nýrra bíla heimsækja að meðaltali þrjú bílaumboð og láta svo til skarar skríða hjá því þriðja.  En sumir heimsækja greinilega miklu fleiri en þrjá sölustaði nýrra bíla þegar bílakaup standa fyrir dyrum því að 49% spurðra heimsóttu einungis eitt bílaumboð og gerðu þar út um kaup á nýja bílnum. Kannski það ætti að vera áminning til söluaðila nýrra bíla að líta á hvern þann sem kemur inn fyrir dyr bílasýningarsalar sem hugsanlegan kaupanda sem gæti ákveðið sig fyrr en síðar.

 J.D. Power skiptir rannsókn sinni upp milli  svokallaðra „Mass Market Brands" og „Luxury Brands" eða venjulegra bíla og lúxusbíla. Sjálfsagt má deila um skiptinguna eins og sést á því að í Svíþjóð flokkast bæði Volvo og Saab með „venjulegum“ bílum en sem lúxusbílar í könnun JD Power og eru þar í flokki með Jaguar.

Cadillac er í öðru sæti í lúxusbílaflokknum en þar á eftir koma Lexus, Mercedes Benz og Land Rover. Þar fyrir neðan fyrirfinnast síðan merki eins og BMW og Porsche sem deilir sæti með Saab. Volvo nær inn í 13. Sætið, einu sæti fyrir ofan Audi, sem er vinsælt merki í Ameríku. Greinilegt er að sölu- og þjónustuaðilar Audi þurfa eitthvað að hugsa sinn gang. Í flokki hinna venjulegu er Mercury efstur, þá Smart, Buick, Pontiac, Chevrolet og Mini í því sjötta.

Áhugavert er að blanda saman listunum yfir venjulegu bílana og lúxusbílana. Þá sýnir það sig að í tíu efstu sætunum eru fimm lúxusbílar og fimm venjulegir bílar. Sex GM bílar eru mjög ofarlega á lista venjulegu bílanna. Þeir eru Buick í þriðja sæti, Pontiac í fjórða, Chevrolet í fimmta, Saturn í sjöunda, Hummer (sem reyndar er ekki lengur í eigu GM) í áttunda sæti og GMC í því níunda.

Mikil sölumerki eins og Honda og Toyota, virðast ekki uppfylla væntingar kaupenda og sömu sögu er að segja um Chrysler. Honda hafnar í 13. sæti og Toyota í 17 sæti, einu sæti fyrir neðan Kia. Sjá nánar á myndunum hér fyrir neðan

http://www.fib.is/myndir/JD-1.jpg

http://www.fib.is/myndir/JD-2.jpg