Japanskt ráðuneyti vítir Mitsubishi Motors

Japanska flutningamálaráðuneytið hefur skipað Mitsubishi Motors að vera framvegis fljótari til og ærlegri við að innkalla gallaða bíla. Ráðuneytið hefur grandskoðað fyrri innkallanir, kvartanir og atvik og fundið það út að fyrirtækið hefur oft brugðist seint við og jafnvel alls ekki þegar gallar hafa komið fram í bílum frá Mitsubishi.

Ráðuneytið rannsakaði Mitsubishi í desember sl. og fann þá m.a. út að bílaframleiðandinn hafði hunsað það í heil tvö ár að finna ástæðu fyrir olíulekavandamáli sem leitt hafði til fjögurra innkallana á árunum 2010 og 2012 sem náðu til 1,76 milljón bíla, þar á meðal gerðanna Minica og Minicab. Mitsubishi Motors hefur átt þátt í ýmsum fleiri hneykslismálum tengdum göllum og innköllunum.

Eitt hið versta þeirra var árið 2000 þegar heimildamaður innan Mitsubishi lak því út að fyirtækið hefði markvisst hunsað kvartanir eigenda gallaðra bíla í meir en 20 ár. „Það kom í ljós að Mitsubishi hefur verið í veseni með hvert einasta skref sem taka þarf í aðdraganda innköllunar á bílum,“ segir fulltrúi í japanska samgönguráðuneytinu við fréttamann Reuters fréttastofunnar. Fulltrúinn segir að meðal þess sem Mitsubishi mönnum bar að gera var að gera áætlanir um endurbætur á meintum og staðfestum göllum og leggja þær fyrir ráðuneytismenn. Það hefðu þeir ekki gert. Í aðdraganda innkallananna 2010-2012 hefði Mitsubishi ekkert brugðist við tilkynningum frá söluaðilum um kvartanir frá kaupendum bílanna og gefið ráðuneytinu misvísandi upplýsingar en þó ekki ólöglegar í sjálfu sér.

Sl. þriðjudag tilkynnti Mitsubishi um innköllun á 3.839 Outlander tengiltvinnbílum sem seldir voru í Japan. Innköllunin væri vegna galla í hugbúnaði sem stjórnar rafmótorum sem knýja annarsvegar framhjól og hins vegar afturhjól bílanna, og vegna galla í aðalrafal bílanna.

Fáar vikur eru síðan framleiðsla og útflutningur á þessum tvinnbílum var stöðvuð vegna hættu á ofhitun í líþjíum-jónarafhlöðum bílanna.