Jarðgöng vöktuð allan sólarhringinn

Vegagerðin rekur tvær vaktstöðvar og umferðarþjónustuna 1777. Eitt af hlutverkum vaktstöðvanna er að fylgjast með jarðgöngum landsins en 1777 veitir upplýsingar til vegfarenda til dæmis þegar eitthvað kemur uppá í jarðgöngum.

Vaktstöðvar Vegagerðarinnar eru á Ísafirði og í Garðabæ. Á Ísafirði er vakt frá hálf sex á morgnana til klukkan tíu á kvöldin en í Garðabæ er vakt allan sólarhringinn. Vaktstöðin í höfuðborginni fylgist með Hvalfjarðargöngum en á Ísafirði er fylgst með öllum öðrum göngum nema á nóttunni þegar vöktun þeirra færist til Garðabæjar.

Jarðgöngin eru stór hluti af verkefnum vaktstöðva, sérstaklega Hvalfjarðargöngin þar sem reglulega bila bílar. Jarðgöngin eru þó aðeins hluti af verkefnunum sem eru meðal annars:

Vöktun jarðganga

  • Skráning og uppfærsla á umferdin.is um færð, lokanir og fleira
  • Fylgjast með að réttar upplýsingar séu birtar frá ýmsum vegbúnaði á borð við veðurstöðvar
  • Samskipti við viðbragðsaðila vegna slysa, hættuástands, lokana og fleira
  • Samræma viðbrögð vegna hættu á vegum
  • Samræma vetrarþjónustu á vegum

Starfsfólk vaktstöðva sinnir einnig umferðarstýringu gegnum göng þegar svo ber undir, til dæmis í einbreiðum göngum í kringum bæjarhátíðir.

Hjá umferðarþjónustunni í síma 1777 er hægt að fá upplýsingar um færð, veður og annað sem viðkemur umferð á vegakerfinu frá klukkan 6:30 til 22:00. Þeir sem koma að lokuðum göngum geta fengið upplýsingar hjá 1777 eða skoðað vefsíðuna umferdin.is.