Jean Todt forseti FIA á Íslandi

Jean Todt, forseti FIA, heimssamtaka bifreiðaeigendafélaga og bílaíþróttafélaga kom í stutta heimsókn til Íslands þriðjudaginn 15. febrúar sl.
Auk þess að heimsækja höfuðstöðvar FÍB í Borgartúni 33 átti Todt fund með forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra og forystumönnum Landssambands íslenskra akstursíþróttafélaga og Íþrótta- og ólympíusambands Íslands.

Jean Todt var kjörinn forseti FIA í október 2009 þegar Max Mosley lét af því embætti. Todt fylgir ötullega þeirri stefnu sem Mosley markaði í forsetatíð sinni að efla umferðaröryggi og öryggi í mótorsportinu sem allra mest. Að þessum málum vinnur hann einarðlega og af sannfæringu og hefur verið sæmdur riddarakrossi frönsku heiðursfylkingarinnar fyrir störf sín.

http://www.fib.is/myndir/Fibhopur.jpg
F.v. Runólfur Ólafsson, Sigdís Þóra Sigþórsdóttir, Jean Todt, Ólafía
Ásgeirsdóttir, Ólafur Kr. Guðmundsson, Henrik Knudsen og Stefán
Ásgrímsson.

Frá því að Jean Todt var kjörinn forseti FIA hefur hann leitast við að heimsækja sem flest aðildarfélögin innan FIA, en þau eru samtals 228 í 132 löndum. Hingað kom Todt frá Noregi og Svíþjóð og fór héðan til Írlands.

Jean Todt vildi með heimsókninni til Íslands nú, m.a. kynnast af eigin raun starfi FÍB, ekki síst þeim þætti er lýtur að umferðaröryggismálum. Aðspurður um hlutverk lítilla félaga eins og FÍB innan þessara ca 100 milljón manna samtaka, sem FIA eru, sagði hann við FÍB blaðið að sjálf stærð félaga skipti ekki höfuðmáli. Hvert einstakt félag í FÍA ætti þar sína sína eigin sterku rödd og hefði jafnt vægi á við önnur félög innan samtakanna, óháð stærð þeirra. Þá væri alls ekki hægt að tala um FÍB sem lítið félag. Hlutfallslega, miðað við íbúafjölda landsins væri félagið verulega stórt og öflugt. Það sé félag sem láti verulega til sín taka, hvort heldur sem er á heimavelli  en líka einnig í alþjóðlegu starfi FIA.

Að hluta til tengdist heimsókn forseta FIA til Noregs, Svíþjóðar, Íslands og Írlands alþjóðaátakinu Decade of Action, eða áratugi aðgerða gegn umferðarslysum í heiminum. Átakinu verður hleypt af stokkunum þann 11. maí nk. og verður það kynnt betur á fréttavef FÍB þegar nær dregur.

Jean Todt á að baki langan og farsælan feril í alþjóðlegu mótorsporti. Hann byrjaði sem rallökumaður og síðar aðstoðarökumaður hjá Peugeot og sem slíkur hreppti hann heimsmeistaratitil í ralli. Þar næst varð hann keppnisstjóri Peugeot og varð liðið og bílar Peugeot mjög sigursælir undir hans stjórn. Margir muna enn eftir Peugeot 205 bílunum í þessu samhengi. Frá Peugeot fluttist Jean Todt svo til Ferrari sem þá lifði fyrst og fremst á fornri klappakstursfrægð Ferrari og naut ekki síst fornrar frægðar kappaksturshetjunnar Enzo Ferrari. En Ferrari markaði engin djúp spor lengur í kappakstursgeiranum. Todt tók til óspilltra málanna hjá Ferrari og byggði upp hið sigursæla Formúlu 1 lið frá grunni og réði til liðsins unga og efnilega ökumenn, þeirra á meðal Michael Schumacher sem kom til starfa sem ökumaður hjá Ferrari liðinu árið 1996. Eftirleikinn þekkja allir.

Jean Todt er ekki fyrsti forseti FIA sem heimsækir Ísland. Fyrirrennari hans, Max Mosley kom hingað til lands haustið 2006 og sat Umferðarþing sem fulltrúi FÍB og hafði framsögu um umferðaröryggi á þinginu.  Heimsókn Max Mosley var mjög mikilvæg bæði fyrir FÍB og Ísland því fullyrða má að heimsóknin varð til þess að lyfta allri umræðu og hugsun um umferðaröryggi á Íslandi á hærra plan.