Jeep Avenger bíll ársins í Evrópu 2023

Jeep Avenger er bíll ársins í Evrópu 2023 en valið var kunngert á bílasýningu sem nú stendur yfir í Brussel.

Valið stóð á milli sjö bíla en Jeep Avenger er fyrsti ameríski bíllinn til að hljóta titilinn í langan tíma. Bíllinn er reyndar hannaður með Evrópumarkað í huga en Avenger vann með nokkuð góðum mun, en hann hlaut 328 stig í valinu.

Í öðru sæti var Volkswagen ID.Buzz sem fékk 241 stig en þriðji var Nissan Ariya sem hlaut 211 stig. Næstir komu Kia Niro með slétt 200 stig, Renault Austral með 163 stig, Peugeot 408 með 149 stig og Toyota bZ4X/Subaru Solterra hlaut 133 stig.

Þetta er í sextugasta skiptið sem Bíll ársins í Evrópu er valinn en það eru níu stór bílablöð sem standa að valinu. Vegna þess að blaðamenn frá Rússlandi tóku ekki þátt að þessu sinni voru blaðmennirnir sem sáu um stigagjöfina 57 í stað 61 í fyrra. Hver blaðamaður má gefa 25 stig í valinu og hver bíll má mest fá 10 stig.